<$BlogRSDUrl$>

30 janúar 2004

og hvað er með Fréttablaðið, það hefur ekki borist inn um lúguna hjá mér núna í tvo daga. Blaðberinn, sem er ekki að standa sig, er búinn að eyðileggja tvo góða morgunverði fyrir mér.
Að sækja blaðið fram í andyri um leið og kaffivélin byrjar að krauma og brauðið poppar upp úr ristinni er fullkomin byrjun á góðum degi, ég hef ekki átt þetta fullkomna start tvo seinustu morgna. Og ef ég les ekki Fréttablaðið á morgnanna þá finnst mér eins og ég viti ekki neitt allan daginn um ástandið í heiminum, þrátt fyrir að heyra fréttir á RUV og lesa mbl.is mörgum sinnum á dag. Ég þarf að vera með á nótunum til að hafa vit á hlutunum og vera gjaldgeng í umræðum. Ég ætla að kæra Fréttablaðið fyrir að stuðla að heimsku minni.

29 janúar 2004

nú er ég öll að koma til, þetta kvef fer vonandi bráðlega að yfirgefa líkama minn. Hef alveg verið að sinna mínum daglegu skildum þrátt fyrir veikindi, mætti á bókhlöðuna í morgun og komst að því að ég hataði mig. Ég var orðin sú manneskja sem truflar hina sem eru að læra með því að sjúga sífellt upp í nefið og hósta og svo þurfti ég að hlaupa fram á 15 mín fresti til að blása úr nefinu. Með mikið af illum augum á eftir mér yfirgaf ég þennan helgidóm og ákvað að sjúga frekar upp í nefið ein heima.

Hugsanir eru skáldskapur nema þær séu staðreyndir (ef maður er að setja þær á blað)

Góð pæling sem ég velti fram í tíma í dag og eins og mér þótti þetta hljóma heimskulega hjá mér þá var kennarinn sammála. Það er allt skáldskapur, t.d þá er allt það sem er skrifað á bloggi skáldskapur þó að það sé viss lýsing á því sem bloggarinn gerði yfir daginn, en hann segir samt aldrei rétt frá og því er hann að skálda. Ég veit að klukkan eitt í dag mætti ég í tíma (staðreynd) en ef ég ætlaði mér að lýsa því sem var gert í þessum tíma hér þá væri ég ekki að fara með staðreyndir, heldur væri ég að skálda, minnið færi ekki rétt með og ég segði aðeins frá því sem mér þótti áhugavert á minn hátt, en fyrir öðrum sem var í tímanum þá væri ég ekki að lýsa tímanum rétt.

.....en ef að hugsanir mínar eru skáldskapur er heilinn á mér þá bók? HAHAHAHAH

28 janúar 2004

aumingja ég

27 janúar 2004

.....held að ég sé komin með fuglaflensuna......
vaknaði í morgun með vont í hálsinum og kalt kalt, vildi kúra lengur undir sænginni minni góðu en þurfti að fara í skólann til að vinna fyrirlestu sem ég flyt á eftir með hálsbólgu og kalt.

Hef reyndar ekki borðað fuglakjöt í langan tíma, örugglega ekki í heilan mánuð, reyndar veit maður aldrei hvað er í þessari djö...skinku. Er því ekki enþá búin að gera mér grein fyrir smitleiðum, dettur helst í hug að það hafi skitið upp í mig fugl á flugi þar sem ég gekk syngjandi um háskólalóðina í gær, kannski hefur sá fugl verið að koma í beinu flugi frá Asíu. Önnur möguleg smitleið er dúnsængin mín en er hún full af andarfjöðrum, náið samneyti mitt við sængina undanfarna daga getur hafa leitt til smits.

Kannski hefur asíubúi andað á mig.

Held áfram að éta hálstöflur og drekka te með von um að fuglinn yfirgefi mig.


26 janúar 2004

Las frétt í mogganum um helgina, hún var um konu á Spáni sem hafði kært eiginmann sinn fyrir heimilisofbeldi, eiginmaðurinn var sýknaður vegna þess að konan leit of vel út, hún leit ekki út fyrir að vera fórnarlamb ofbeldis vegna þess að hún var vel klædd og með skartgripi, ég hélt nú að spánverjar væru komnir lengra en þetta í réttarkerfinu. Þetta er svipað og þegar kvenkyns fórnarlömb nauðgara voru sagðar hafa freistað nauðgarans með því að ganga í of stuttu pilsi og því gætur þær bara sjálfum sér um kennt.

Átti annars fína helgi, smá djamm á laugardagskvöldinu þar sem slett var úr klaufunum á dansgólfum borgarinnar, engin alvarleg ummerki eftir það kveldið.

23 janúar 2004

......og ég er mætt aftur, Kuldaboli hættir aldrei að blása!

Hlustaði á fyrstu plötuna sem ég fékk á áðan þar sem ég straujaði þvott niður í kjallara, en þar er gamli plötuspilarinn staðsettur. (Ég er að tala um plötu ekki cd). Það er plata með Sálinni hans Jóns míns, rifjaði upp hversu ánægð ég var þegar ég opnaði pakkann sem innihélt hana, þá var ég orðin unglingur sem átti plötu með Sálinni ... það var flott þá. Gat enþá sungið með öllum lögunum og mörg þeirra kveiktu ljós á gömlum sveitaballaminningum þar sem Njálsbúð lék stórt hlutverk. Setti einnig á fóninn gamla Todmobil plötu sem innihélt m.a Pöddulagið, gat líka sungið með henni og rifjaði upp fyrsta almennilega slummið mitt sem átti sér einmitt stað á Todmobil balli í Njálsbúð fyrir nokkrum árum.

Það var gaman að strauja í dag.

22 janúar 2004

Blogg á að vera áhugavert og stutt til að grípa lesandann strax því annars stoppar hann aðeins um 30 sekúndur á síðunni.
Ég er áhugaverð sem persóna en sem bloggari er ég verri.

Þessum bloggtíma mínum er held ég lokið og hann entist í þrjá daga, hann náði ekki einu sinni að verða að bólu, bara að aumum hnúð í húðinni. Þessi sjálfhverfutilraun virðist vera vonlaus, ég hef nú setið hér fyrir framan tölvuna í tölverðann tíma til að skrifa skemmtilegan pistil en ekkert gerist. Ég hugsa alltaf " ég get ekki skrifað um þetta, þetta er ekki merkilegt, það langar engum að vita þetta um mig, nei nei nei hvaða vitleysa í þér manneskja "
Það gerðist svosem margt í dag, ég svaraði þörfum líkamans með mat, drykk og klósetferðum. Mjólkaði kýr, gaf kindum, hitti dýralækni og mann frá vinnuvélaeftirlitinu, lærði, sofnaði yfir lærdóm, eldaði mat og allt virðist stefna í það að ég endi daginn á því að fara að sofa.
Hversdagslegur dagur og ég eyði tíma þínum í að lesa um hann, þú hlýtur að hafa betri hluti að gera.

21 janúar 2004

Þessi síða er strax farin að segja heilmikið um mig sem persónu.
T.d: er ég léleg á tölvu og í stafsetningu (fæðingarkvilli), ég skoða blogg hjá persónum sem heita Aðalheiður og Guðbjörg.
Baggalútur er í miklu uppáhaldi og sér oft um að bjarga deginum hjá mér og hefur einnig þann leiðinlega galla að láta mig hlægja upphátt á Þjóðarbókhlöðu Íslendinga sem leiðir til stingandi haturs augnaráðs því þar eiga allir að líta gáfulega út, menntafólk hlær ekki!
Það leiðir til að á síðunni er krækja á Háskóla Íslands þar sem ég stunda nám í augnablikinu, sem segir að ég sé komin yfir tvítugt...nema ég sé undrabarn?
Einnig er krækja á "besta tíma lífs míns" sem er Bændaskólinn á Hvanneyri, þaðan útskrifaðist ég sem búfræðingur fyrir nokkrum árum síðan, þar var gaman.
Á bondi.is skoða ég það sem er að gerast í landbúnaði hér á landi, mér til fróðleiks og skemmtunar og vona ég að sú vitneskja muni koma mér að notum seinna þegar ég verð orðinn bóndi á stórri jörð.
Og já...ég virðist vera bjartsýnismanneskja.

Góðan daginn!
annar dagur í bloggi hafinn og ég gat ekki sofnað í gær fyrir árásargjörnum blogghugmyndum. Heltekur þetta mann? eða er ég bara svona spennt yfir þessari tilraun!

Ég held að ég sé strax farin að skilja þessa bloggara sem ég telst orðið til líka, ég hef reyndar ekki látið neinn vita af þessari síðu en sú vitneskja að ég sé að birta skrif á opinberum vettvangi virðast kitla einhvað í mér. Sjálfhverfan er að brjótast fram og áður en ég veit af mun ég ekki geta tala né skrifað um annað en MIG, ég ég ég!!! Kannski er mjög gott að vera aðeins sjálfhverfur því þá eyðir maður ekki tíma í að hugsa um aðra og um hvernig aðrir hafi það, tíminn getur farið allur í að velta sér upp úr eigin vandamálum og hamingju.
Er einhver mikilvægari mér en ég? Amk ekki í augnablikinu
HAHA BLOGG-DJÖFULLINN náði mér.

20 janúar 2004

Er að reyna að setja upp athugasemdakerfi (comments). Vinsamlegast notið það ef þið hafið einhvað við skrif mín að athuga.

oojjj hallærislegt, er ekki hægt að stroka út færslur?

JÆJA ég mun læra á þetta smátt og smátt en þangað til að kunnátta mín er fullkomnuð þá verðið þið, kæru lesendur, að vera rólegir og umburðarlyndir.

Hvað gerðist? þetta virtist virka en hvað svo? Er kunnátta á tölvu nauðsyn. fólk segir ekki.
sjáum til sjáum til!

Þetta tókst, hvað er þá næst! Kannski að læra á tölvu, en fólk segir að sú kunnátta sé ekki nauðsynleg til að geta bloggað....
sjáum til, sjáum til.

Í dag hef ég mína blogggöngu.

Ég hef aldrei skilið fólk sem bloggar, mér hefur alltaf fundist það sjálfhverft.

Hversu merkilegt getur líf einnar manneskju verið?? þarf að setja það á alþjóðlegan miðil? og eru skoðanir það mikilvægar að það þurfi að hrópa þær út um allt, nægja ekki persónuleg samtöl eða lesendabréf í blöðin til að segja sínar skoðanir þar er a.m.k e-r sem getur mótmælt og beðið um rökstuðning, en með blogginu getur manneskjan sagt allt án þess að þurfa að rökstyðja eða útskýra nánar.

Hvenær kemur blogglögga eða er hún til??

Frá með deginum í dag ætla ég að vinna á fordómum mínum gagnvart bloggi og reyna að átta mig á hvað það er sem fær fólk til að blogga, og ég vonast til að þessi blogg-tilfinning eigi eftir að kvikna í mér einn daginn en þangað til verð ég varkár og efins um þessa miðlunarleið.

kveðja... enn einn "sjálfhverfi" bloggarinn

This page is powered by Blogger. Isn't yours?