<$BlogRSDUrl$>

26 febrúar 2004

Athugið þetta:http://www.pop-trash.com/jude/web.php

Hvernig getur einn maður verið svona fallegur?

Fór á Cold mountain í gær og vá fín mynd með fallegasta leikara í heimi, ég lak út úr bíóinu og stelpurnar sussuðu á mig því ég stundi víst svo hátt þegar hann birtist á tjaldinu. Jude Law er draumagæinn minn og stefndi ég á Londonferð þegar hann og kerlingin skildu en þá náði hann sér strax í nýja kellu án þess að gefa mér tækifæri í millitíðinni. En ég er tilbúin að fljúga um leið og hann hættir með henni. Verst að það fylgir honum svo stór pakki, hann á víst orðið þrjá krakka, en ég væri tilbúin til að fæða honum þrjátíu í viðbót. hahahahahhah

Annars hefur kvef gert vart við sig í nefi mínu enn og aftur. Hvar er hraustleikinn sem ég bjó yfir? ég er orðin einhvað svo veikbyggð......nei ekki byggð heldur gerð. Fæ kvef, társt næstum því í bíó, hugsa fallega til fólks og fyrirgef, og svo datt mér í hug að verða væmin um daginn en komst yfir það á skömmum tíma.
Þarf að spila lagið Hraustir menn með Karlakórnum í Borganesi fyrir mig á eftir og athuga hvort hraustleikinn brjótist ekki aftur fram og veikleikinn yfirgefi líkama minn.
"Ef áttu draum, syngdu dátt, rætist hann þá........" Ég syng: Jude Law, Jude Law, Jude Law......rætist hann þá?

24 febrúar 2004

Núna lekur hamingjan af mér :o) ég gekk meira að segja brosandi inn á Þjóðarbókhlöðu.

Haldið þið ekki að einn draumur minn frá því í morgun hafi ræst á áðan, já ég skal sko segja ykkur að ég fékk bollu, rjómabollu með sultu og súkkulaði.

Það þarf stundum lítið til að gleðja suma.

Ég fór í Blóðbankann að gefa minn vanalega skammt af blóði og þar var drauma bollan mín á kaffiborðinu.

Góðverkin borga sig, Guð hefur örugglega hugsað..."já hún gaf blóð, best að launa henni góðverkið og láta eina ósk rætast"
og þá hef ég náttúrulega verið að hugsa um bollu ekki berann fallegan karlmann í rúmið mitt og Guð lét bolluóskina rætast, mér til mikillar ánægju. Ég ætla að muna eftir að hugsa um karlmanninn næst þegar ég gef blóð eftir fjóra mánuði.

Brosið mér til samlætis


Þá er sprengidagur upp runninn, ég sé ekki fram á að frá saltkjöt og baunir í dag, mig langar svo í svoleiðis mat mér finnst hann svo góður en ég nenni ekki að elda handa mér einni. Auglýsi eftir heimboði í saltkjöt og baunasúpu.

Keypti mér eina skítna bollu í gær, ekkert vit í þessum keyptu bollum þær eru svo sætar og með bakarísbragði og svo kosta þær morðfjár. Það vildi enginn baka fyrir mig. Óska eftir heimboði í afgangs-heimabakaðar-rjómabollur.

Öskudagur á morgun, sé ekki fram á að fara í búning, slá köttinn úr tunnunni og fá nammi. Mig langar ekki til þess heldur, pirrandi þessir syngjandi offeitu krakkar út um allt, eins og þau hafi gott af öllu þessu sælgæti meðan offitan og tannpínan herjar á þau.

23 febrúar 2004

búin að átta mig á því hvað er að hrjá mig, þ.e þetta eirðarleysi og einbeitingarleysi er ekki bara það heldur skortur á spennu og tilbreytingu. Þarf nauðsynlega að fara á stefnumót, klifra fjöll, fá frábært atvinnutilboð og vinna í lottó.

Ég held ég þurfi að finna mér gæja til að verða alvöru skotin í, ekki bara til að láta mig dreyma um.

.....og ég sem átti þessa fínu helgi og nú er kominn mánudagur sem skemmir allt.

Fór í partý á laugard.kv., það er nú ekki í frásögu færandi nema það var mjög gaman. Drukkið og borðaður frábær matu, farið svo í bæinn á Nasa, þar var dansað við undirleik hljómsveitar. Ekki sáust fallegir karlmenn á svæðinu. Fór svo og hitti breskan vin minn á Pravda, en var hann hér í helgarferð með 13 lessum. Þetta var eins og heill jólasveinahópur og ég var eins og Grýla. Því, ég get svo svarið það, þá voru allar lessunar undir 155 cm á hæð á háhæluðu og breski vinur minn er vel undir 170 cm á hæð og svo mætti ég á svæðið í allri minni lengd + að vera í háhæluðum skóm og stóð þarna upp úr hópnum eins og ljósastaur. Reyndar var dásamlegt hvað allir horfðu upp til mín en verra var að ég fékk í bakið af því að þurfa að beygja mig alltaf niður til að heyra hvað þau höfðu að segja. Stundum er gott að vera stór en ekki þegar maður vill láta lítið á sér bera.

Ég dreg þá ályktun að: allt kvennfólk undir 155 cm á hæð sé samkynhneigt.


20 febrúar 2004

hversvegna leggur fólk ólöglega ef það er nóg af lausum stæðum? Mjög áberandi við þjóðarbókhlöðuna, það er eins og fólk geti barasta ekki labbað nokkra metra, að það þurfi helst að keyra sig inn í bygginguna. Letiblóð!!!!

Fór á danssýningu í Þjóðleikhúskjallaranum í gærkveldi, það var sýning frá Kramhúsinu á alþjóðlegum dönsum. Magadanskennarinn minn var að sýna og mér fannst hún langflottust, hún er svo liðug að þetta var eins og að horfa á slöngu dansa. Einnig voru balkandansar, flamingo, salsa og fleira, mjög flott og gaman að horfa á.
Núna langar mig að læra meira, því magadansnámskeiðið er búið, er að hugsa um afró, það krefst ekki eins mikils liðleika og bumbudans.......skrítið að vera dansóð en geta aldrei dansað. Ég hef farið á tvö gömludansanámskeið og svo núna magadans og mér finnst mjög gaman að dansa en þegar það kemur að því þá get ég ekki neitt. Er með of stíf liðamót og lélegt tóneyra, svo hefur hugurinn ekki stjórn á fótunum.

Verð að finna mér "dansfélaga" sem dregur fram konuna í mér.

Og hvað með þennan snjó, var hann ekki farinn í sumarfrí?

19 febrúar 2004

Er þetta hægt??? nei!

það er of mikið að gera hjá mér í skólanum, tvö verkefnaskil á mánudaginn og eitt á morgun sem ég veit varla hvernig á að vera. Var að lofa mér í vinnu um helgina og líka um næstu helgi + að djamma á laugardagskvöldið (get ekki sleppt því, löngu planað). Og svo í ofanálagi þá er ég löt og allt hugmyndarflug dautt, langar bara að sofa, horfa á sjónvarp og éta óholt. Það er svo skrítið að stundum þá bara hverfur allur dugnaður úr manni og allt virðist svo óyfirstíganlegt, sérstaklega leiðinleg verkefni sem krefjast lesningar á mjög leiðinlegu efni.

Sprakk úr hlátri í morgun þegar ég kveikti á útvarpinu, því Gestur Einar vinur minn var að tala um veðrið. Núna var það kona í símaviðtali sem lenti í honum, hún var í öðrum landshluta og var að tala um einhverskonar samkomu sem hún er að standa fyrir þar. Þá fór Gestur að hafa áhyggjur af því að það kæmi kannski enginn á samkomuna vegna óveðurs, en konan hélt nú ekki,því væri ekki spáð. Og hvað haldið þið! þá vippar Gestur sér bara inn á síðu veðurstofunnar og les veðurspá dagsins í tilteknum landshluta fyrir konuna og hann komst að því að það átti ekki að verða neitt óveður heldur bara smá rigning og því ætti fólk að taka regnhlif með sér á samkomuna, konan jánkaði þessu nú en virtist ekkert eins upprifin og Gestur yfir þessu.
Ég held að Gestu haldi að hann sé veðurguð yfir íslandi.

Jæja ætla í kaffi svo ég þurfi örugglega ekki að líta í bók.

17 febrúar 2004

Mikil heimska hefur gert vart við sig í hausnum á mér að undanförnu, tel ég hana stafa af áhorfi, með hálfum huga og öðru auganu, á Hlustendaverðlaun FM 957 sem ég sá endursýnd á Popptv í vikunni.

Held ég að þessi heimskuáhrif hafi mestmegnis komið frá söngvaranum í hljómsveitinni Á móti sól.
Mikill djöfull er maðurinn viðbjóðslegur, að þetta eigi konu, geti sungið og sé þekkt meðal íslensku þjóðarinnar og hvað þá að það fái að birtast í sjónvarpi. Og þó ég sé laglaus, raddlaus, tóneyralaus og kunni ekki á neitt hljóðfæri nema blokkflautu þá gæti ég örugglega samið betri lög en þetta pakk.

og já !! hvað er að verða um æsku landsins ef hún kaupir geisladiska með lögum eftir þetta band? ég hef meiri áhyggjur af svona spillingu heldur en áfengisdrykkju og dópi , það er þó alltaf hægt að fara í meðferð úr því en aðdáun á Á móti sól er ekki hægt að þvo af sér þó maður sé kominn í gröfina.

Nú hef ég látið blóðþrýstinginn komast upp úr öllu valdi út af þessum hálfvitum. Að ég skuli skrifa um þá hér, þær ættu að vera stoltir af því ooojjjjjj að ég skuli skrifa um þá !!!! sjáið bara hvað heimskuáhrifin eru komin langt.


16 febrúar 2004

Ég skal nú segja ykkur það að aldurinn er ekkert farinn að segja til sín hjá mér þegar það kemur að djammi!

Það var áfengi í blóði mínu miðvikudag, fimmtudag, föstudag og laugardag, sofið og lært þess á milli. Reyndar var þetta lítið magn í hvert skipti, var mjög róleg á djamminu því ég vildi ekki að dagurinn á eftir yrði ónýtur í höfuðverk og sjálfsvorkun........og þessi litla drykkja varð til þess að ég var stíf og leiðinleg á djamminu, gat ekki dansað flottara en Effelturninn og enginn strákur þorði í mig því ég var með kaldhæðinn tussusvip allan tímann. En mikið svakalega var gott að vera ekki þunn, ætla að vera þunn um næstu helgi og sleppa öllu fram af mér þá.

Er byrjuð á lokaritgerðinni í háskólanum, komin með fínan kvíðaknút í magann og skitu af stressi, þarf að skila efnisyfirliti og nánari greinargerð um ritgerðina næsta föstudag og fékk að vita um þau skil rétt fyrir seinustu helgi þegar ég hitti leiðbeinandann minn í fyrsta skipti. Ég ætla að mikla þetta verk mikið fyrir mér svo ég missi matarlystina, geri ekki annað en að drulla því litla sem ég ét og svo á útskriftinni þá verð ég svakalega grönn og sæt , góð megrunaraðferð því ég held að ég nenni barasta ekki að fara erfiðu leiðina með hreyfingu og svoleiðis.

Stefna dagsins: að koma einhverju í verk.


13 febrúar 2004

Illa sofin og úrill í dag. Og er það Vöku-fólki að kenna sem var að fagna sigri í stúdentaráðskosningunum HÍ sem fóru fram í gær. Það er gott og gaman að halda partý en þegar parýið byrjar um fimm að morgni og stendur fram til kl átta þá er mér nóg boðið og það á virkum degi.

Ég svaf þessum dásamlega svefni fram eftir nóttu en um fimm vaknaði ég við svaka háa diskótónlist og öskur, ég hugsaði sem svo að þetta myndi ekki standa yfir lengi og reyndi að sofa áfram en hávaðinn minkaði ekki og þegar ég var búin að vera þolinmóð í um tvo klukkutíma þá var mér nóg boðið klæddi mig skó og bankaði upp á hjá partýhaldaranum og bað hann vinsamlegast að lækka í græjunum, auðvitað urðu allir viðbjóðslega smeðjulegir við mig og báðu margfallt afsökunar (eins og þeir hafi ekki vitað að allir voru sofandi á þessum tíma sólahringsins), ég var tussa við þá en samt skemmtilega smeðjuleg líka. Þeir lækkuðu í tónlistinni og minkuðu hávaðann en ég heyrði sko að þeir voru brjálaðir út í mig og þá gat ég ekki sofnað aftur af ótta við að vera myrt í svefni.....m.v ástandið í þjóðfélaginu þá geta háskólanemar líka verið morðingjar og mannætur. En ég held að ég hafi verið hetjan í byggingunni þessa nóttina því það voru allir að vera brjálaðir á þessum endalausu ABBA lögum.

Ég er sko enginn partýspillir, finnst sjálfsagt að halda partý á stúdentagörðunum en þegar það er með svona gríðarlegum látum snemma að morgni á virkum degi þá er farið yfir línuna. Húsið er nefnilegar svo hljóðbært. Partý um helgar mega vera alla nóttina mín vegna en á virkum dögum þá eiga lætin að vera búin um kl eitt - tvö.

p.s einu sinni kom íbúi brjálaður til mín og kvartaði undan hávaða vegna partýs, ég tók vel í það og slökti á græjunum og rak alla út....þetta er tillitssemi.

föstudagurinn 13 byrjar vel hjá mér

11 febrúar 2004

...og hvað haldið þið???? Í tilraun minni til að skipta um útvarpsstöð lenti ég á Bylgjunni, það væri nú ekki í frásögu færandi nema ég heyrði konu eina tala um valentínusardaginn sem mun vera 14.febrúar næstkomandi. Hún var að tala um útvarpsleik sem hún er með í gangi og á að draga út tvo heppna elskendur á valentínusardaginn og fá þau valentínusardót og dekur í verðlaun. Ég skipti sem fyrst um stöð því ég er ekki partur af elskendum né sérlega rómantísk og svo er ég á móti þessari valentínusardagsinnleiðingu til Íslands. Þetta er aðallega bandarískt og breskt og væmið eftir því, við hér á landinu góða erum með bóndadag (23. janúar) og konudag (22.febrúar), það eru okkar ástar-dagar, ekkert valentínuspínus dagur elskendanna.

Ég hvet fólk til að forðast Bylgjuna og valentínusardaginn, enda bara fyrir veikar sálir sem þurfa væmni, ást og bleika liti í líf sitt + lög með Celine Dion.

Svo held ég að það sé ekki séns að íslenskir karlmenn geti tekið upp á valentínusarsiðunum þar sem að senda væmið kort þar sem ást er játuð til konunnar sem þeir hrífast af er ekki þeirra stíll, það er ekkert brennivín og dónaleg sms inn í því.

Og ef að miðbærinn verður fullur af smeðjulegum elskendum á laugardagskvöldið þá drekk ég mig piss fulla og gubba á þá alla.................................hemmmmmm??? hvers vegna ætli ég hafi eiginlega alltaf verið kærastalaus??


10 febrúar 2004

Prófið að hlusta á Rás 2 á morgnanna milli kl 8 og 10, þá er Gestur Einar með morgunþáttinn sinn.
Ég hlusta oft á hann og það sem maðurinn fer skemmtilega í taugarnar á mér. Hann er örugglega búinn að vinna í útvarpi í 15 ár en samt er hann alltaf að rekast í vitlausan takka, láta koma vandræðalegar þagnir, spyrja asnalegra spurninga og svo spilar hann sömu lögin dag eftir dag og þau eru leiðinleg. En það besta er hvað hann talar mikið um veðrið, hann er alltaf að hringja út um allt land að spjalla við fólk og það fyrsta sem hann spyr er "hvernig er veðrið, það var nú spáð hjá ykkur blablabla" og ef fólk segir að veðrið sé bara gott þá verður Gestur svektur. Því t.d ef það er spáð stormi fyrir austan og svo er enginn stormur hjá þessum gæja fyrir austann sem hann er að tala við þá verður veður-Gestur ekki sáttur, trúir jafnvel ekki viðmælanda sínum og biður hann að tékka út um gluggann aftur. Gestur vill hafa vont veður því þá hefur hann um einhvað að tala í morgunútvarpinu sínu. Það er einn góður punktur í þættinum hjá honum og er hann einu sinni í viku, það er þegar Arnar Bjarni homma-hárgreiðslumaður kemur og talar um tísku, Gestur hefur ekkert vit á tísku og því myndast lifandi og skemmtilegar umræður......en Gestur þarf alltaf að spyrja hann hvernig á að klæða sig m.v veðrið sem er úti þann daginn. Þessi Arnar hlær líka mjög skemmtilega, hátt og skrækt......en auðvitað tala þeir alltaf saman rétt fyrir fréttir eða tilkynningar svo þeir eru alltaf að flýta sér. Ég skora á RÚV að gefa tískugúrúnum lengri tíma í morgunþætti Gests Einars, jafnvel leifa honum að taka yfir þáttinn. Ég þakka guði alltaf fyrir, þegar ég hlusta á Gest, að ég skuli ekki vinna í frystihúsi þar sem maður nær aðeins rás 1 eða 2 í heyrnatólin ooojjjj hvað ég mundi deyja úr leiðindum þessa tvo tíma með Gesti vini mínum.

Ætli hlustun mín á Gest Einar sé sjálfpíningarhvöt? já örugglega því ég skipti aldrei/sjaldan um stöð þó ég sé að fá gubbuna yfir veðurlýsingum og vandræðalegum þögnum.

09 febrúar 2004

Eftir fína helgi líður mér vel en samt með hnút í maganum yfir öllu ólesnu skólabókunum.

Drakk vín, át hangikjöt, súsaðan blóðmör og einn bita af hákarli, dansaði svo fram eftir nóttu við gamla dansa lög og annað rokk. Besta skemmtun ársins því allir eru að skemmta sér.. ekki að sýna sig og halda merkikertafeisi eins og á skemmtistöðum höfuðborgarinnar.

Ég er slæm stelpa og hef slæm áhrif á góðar vinkonur mínar, ein þeirra ætlar að skrópa í tíma til að koma með mér í Hafnarhúsið að skoða Frostverk, það er nefnilega ókeypis inn á mánudögum í öll listasöfn á höfuðborgarsvæðinu. Alltaf að spara til að geta eytt í vitleysu.


06 febrúar 2004

"Vanlíðanin og sjúskið eftir mannamót. Bara af einu saman ruglinu, þvinguðum setningum og fölsku hugarástandi. Vildi ég gæti farið í heilaþvott" (Pétur Gunnarsson, Vasabók)

Mér líður nákvæmlega svona eftir fermingarveislur og jólaboð!

"Málið er að ég vil ekki búa til skáldsögu, ég vil að veruleikinn sé skáldlegur"
(Pétur Gunnarsson, 1989. Vasabók, Bókaútgáfan Punktar, Reykjavík)

Vá hvað ég er sammála honum Pétri í þessari hugsun, reyndar er veruleikinn skáldlegur þar sem maður sjálfur er sinn eiginn rithöfundur.
Ef að minn veruleiki væri skáldsaga, sem að hann kannski er (þ.e það getur verið að ég sé persóna í skáldsögu), þá væri ég í ástarsögu, en ef að ég er í skáldsögu þá er ég í leiðinlegri hversdagssögu. En það þyrfti að vera svolítil spenna í þessari ástarsögu t.d smá morð sem ég ætti að finna lausnina á eða svoleiðis, því ég er svo mikill spæjari í mér. Þetta yrði ástarsaga þar sem allt gengi upp, þar sem karlmenn væru ekki heimskir og misskildu allt og túlkuðu vitlaust og þar sem allir karlmenn væru skotnir í mér, snjöllu spæjara gellunni.

Jæja bull og vitleysa er þetta í mér...best að snúa aftur til hversdagsins.........oojjj bara ljótir strákar hérna í tölvustofunni, skiptinemar!!! Það er greinilegt að helgar-grunnhyggnin er komin í mig, passa nefnilega að hugsa aldrei mjög djúft um helgar. Virðist stefna í enn eina skemmtunina nú um helgina,næ bara ekki upp í nefið á mér fyrir stöðugum fylliríum.....en búin að lofa sjálfri mér að komandi sunnudegi verði ekki varið í rúminu.

Djöfull er ég ömmulegur bloggari!

05 febrúar 2004

Í morgunn var snjór úti og er hann þar enn, ég er ekki mikið fyrir snjó. Ég vil frekar frost og logn eins og var í gær, þá er himininn heiður og sólin blindar mann af fegurð, þá kemur yfir mig löngun til að keyra út úr borginni og ganga á fjöll,ég verð svo hraust og heilbrigð í svona veðri.

En það varð nú ekki neitt úr því, það eina sem ég gekk var á bókhlöðuna þar sem ég las, svaf og horfði á bókhlöðuguðinn minn sem sat aðeins tveimur borðum fyrir framan mig....hann hefur guðdómlegan háls og hnakkasvip. Hugsa að hann hafi fundið fyrir áfergjunni í augnaráði mínu enda svolítið vandræðalegt þegar hann snéri sér skyndilega við og leit beint í augun á mér, ég snéri mér asnalega fljótt undan og roðnaði svo hann fattaði örugglega að ég var búin að vera að glápa á hann undanfarinn klukkutíma. Þoli ekki þegar hann er á bókhlöðunni, það truflar einbeitingu mína þannig að ég kemst ekkert áfram í lestrinum. ........en dagdraumar eru dásamlegir og nauðsynlegir til að lita gráann hversdaginn.

Látið ykkur dreyma í dag.


03 febrúar 2004

Er þetta ég, persónan sem bloggar, eða er ég í gervi kuldabola? Sýni ég mitt rétta andlit hér eða er ég að búa til aðra persónu?

Ég held að þetta sé ekki ég eins og ég er, ég set mig nefnilega í aðrar stellingar þegar ég byrja að skrifa hér á síðuna. Hugsa að ég færi líka aldrei að gefa einhvað af sjálfri mér í svona blogg, jú jú ég skrifa um hluti sem eru að gerast hjá mér en þetta er ekki ég, kannski smá af yfirborðinu
en annars ekkert meira. Enda kann ég voða lítið að gefa af mér hvort sem það er í gegnum tölvu eða í eigin persónu, held mér langi heldur ekki til að vera ég í þessu bloggi.

Hvað eru mörg "ég" í því???

Vinsamlegast svarið EKKI þessum spurningum.

Fyrir utan smá reynslu úr eigin lífi þá er þetta skáldskapur.

02 febrúar 2004

Hvað haldið þið? Fréttablaðið kom í morgun á réttum tíma, gat því lesið viðburði seinustu daga ásamt rist, skyri og kaffi, setti svo í nokkrar þvottavélar, las heimalærdóm og átti dásamlegan morgun með sjálfri mér. Finnst ég sæt og klár núna.

Hef bætti við einni krækju í viðbót sem kallast Bresk vændiskona, þetta er blogg breskrar vændiskonu. Hún er fín vændiskona, háskólamenntuð og klár.......en samt vændiskona, hún valdi það sjálf! Þetta blogg hefur fengið bresk-bloggverðlaun, enda mjög vel skrifað hjá kerlingar mellunni (get sagt þetta án þess að fara með rangfærslu). Það veit enginn nema hún hver hún er. Sumir halda því fram að þetta sé skáldskapur og það sé bara einhver blaðamaður eða rithöfundur sem skrifi þetta, og að þetta sé undirbúningur fyrir útgáfu í bókarformi. En það skiptir mig akúrat engu máli, mér finnst þetta áhugavert blogg og hún má vera hóra eða ekki hóra fyrir mér.

Gærdagurinn fór í rúst hjá mér enn og aftur, var þunn og þreytt og eftir mig eftir enn einn djamm-laugardaginn, ég skamma mig alltaf á sunnudögum eftir svona djammdjamm. Heill dagur í vitleysu, ég sem ætlaði að fara á kaffihús,listasafn og læra en nei ég lét heilan dag fara í sjálfsvorkun. Verð að hætta að drekka svona og vera svona lengi úti. Ekki það að það hafi ekki verið gaman...það var nefnilega drullu gaman alveg fram á miðjan sunnudaginn þegar þvinkukarlinn kom í heimsókn í hausinn á mér.

Lifið heil

This page is powered by Blogger. Isn't yours?