<$BlogRSDUrl$>

30 nóvember 2004

Áhugavert samtal sem á sér stað í hausnum á aðalpersónunni á þessari stundu:

Hún: Hvenær ætlar þú að verða fullorðinn?
Hún: Skilgreindu fullorðinn?
Hún: Drekka kaffi, reykja vindla, skamma börn, ekki brosa upp í himininn þótt það séu stjörnur og tungl þar, hugsa alvarlega og velta sér upp úr öllu, horfa alltaf á Kastljósið þótt það sé leiðinlegt í því, fara snemma að sofa, skipuleggja sig, vera stressaður, sleppa dagdraumum og kalla þá vitleysu, hugsa um peninga, lesa blöðin frá a til ö og þá meina ég ekki bara fyrirsagnirnar, vita hvað gerðist, vera raunsær, kunna að elda, ekki brosa til ókunnugra, ekki brosa út í loftið á miðjum gangi, sleppa glampanum í augunum, ekki segja allt sem manni dettur í hug og svo margt fleira sem þú veist þegar þú verður fullorðinn.
Hún: hljómar ekkert spennandi
Hún: Ó! ég gleymdi einu, að taka ákvarðanir í lífinu og fá sér vinnu, láta verða eitthvað úr sér, eignast börn og maka, bíl og hús, hund og kött, könnu og glas, inniskó og slopp.
Hún: Ætli ég láti mér ekki nægja náttborð með fullt af bókum.
Hún: Jú jú ætli það sé ekki nóg, en ég veit ekki hvort þú telst fullorðin þá
Hún: Við látum bara jólaboðin dæma um það, ef mér er boðið sæti á fullorðinsborðinu þá er ég ein af þeim
Hún: það má láta reyna á það


29 nóvember 2004

Eins og lesendur þessarar síðu vita þá er ég frekar óheppin þegar það kemur að matargerð.
Rétt í þessu var ég að setja blóðmör og lifrapylsu í pott til þess að borða í kvöldmatinn. Ekki bjóst ég við að klúðra því en eftir smá suðutíma á slátrinu leit ég í pottinn og þar var blóðmörinn allur á floti fyrir utan keppinn. Þá hafði saumurinn á keppinum sprungið og allt lak út, það versta er að ég get kennt mér algjörlega um þessa lélegu saumamennsku enda var það hlutverk mitt í nýafstaðinni sláturtíð að sauma vambirnar saman.
En ég verð ekki hungurmorða í kvöld því lifrapylsan er ennþá heil.

Auðvitað gat ég ekki látið heimapróf stoppa mig í því að kíkja út á lífið á laugardagskvöldið. Á Ölstofuna var strunsað ásamt fríðu föruneyti og fengið sér vískí. Eitthvað var furðulegt andrúmsloftið þessa helgina því það er ekki hægt að telja það á fingrum beggja handa hversu margir karlmenn gáfu sig á tal við mig.....það má kannski rekja til þess að ég fór í fyrsta skipti í áratug út í flegnum og efnislitlum bol.......og út frá því má drag að karlmenn eru alltaf jafn vitlausir að laðast að brjóstaskorum og beru holdi, það mun líklega aldrei verða öðruvísi.

Ýmsar línur hafa slegið í gegn hjá karlmönnum bæjarins í gegnum tíðina en þær sem eru í efsta sæti hjá mér hafa báðar fallið á Ölstofunni:
- mikið rosalega er stutt milli augnanna á þér (sagt af pissfullum rangeygðum náunga)
- skyndikynni utan dagskrár, eins og afsakið hlé (sagt af einum sem augljóslega planar allt fram í fingurgóma), verð nú að segja að þessi maður hækkaði ekki í áliti með þessu hallærislegu orðum en ég hló mikið af honum.

En vegna mikils framboðs gat ég ekki gert upp á milli og fór ein heim...svona er ég góð og skynsöm stúlka sem vill ekki stunda skyndikynni utan dagskrár og svo beið heimaprófið mín.

Jæja ætli lifrapylsan sé ekki í góðum málum í pottinum, þarf að setja kartöflur í pott...það getur nú varla farið öðruvísi en vel.

27 nóvember 2004

Mugison, íslendingurinn sem mun toppa Halldór Laxness og Björk.

Ef þið hafið ekki diskinn þegar í höndunum þá fáið ykkur hann, dásamlegt eyrnakonfekt og vel rúmlega það.

Á móti sól sást í þætti Gísla Marteins á áðan, ég slökkti strax á kassanum. Þeir voru að eyðileggja bráðskemmtilegt lag Sólstrandagæjana um ranga manninn. Gátu þeir ekki bara tekið eitt af sínum ömurlegu lögum í staðin fyrir að eyðilegga gott og gamalt lag.
Þetta minnir á Jessicu nokkra Simpson sem hefur eyðilagt hið frábæra lag Angels með ofurtöffaranum Robbie Williams. Að hún hafi vogað sér að gera þetta töffaralag að væmnum Celine Dion viðbjóði mun ég aldrei fyrirgefa þessari heimsku ljósku.

Heimapróf rokkar um helgar

25 nóvember 2004

Fátt hélt ég að væri auðveldara en að elda pakkasúpu.
En sjaldan hef ég séð kekkjóttari grautarsúpu en í pottinum mínum á áðan. Ég tók reyndar til minna ráða og sigtaði súpuna ofan í diskinn. Hún smakkaðist sæmilega.

Stundum held ég að ég toppi Bridget Jones í aulaskap og óheppni, auðvitað toppa ég hana því hún er ekki til, hún er skáldskapur en ég er raunveruleg........amk eins langt og það nær.

Búin að sjá nýju myndina með frú Jones, fannst hún bara fyndin og sæt, svona ástarvella fyrir kerlingar eins og mig.

jæja nú er ég orðin svöng aftur, ætli það sé ekki best að sigta meiri súpu.

en það bíður jú hver loks eftir sjálfum sér

Ég er amk ennþá að bíða eftir mér.

Straujárn, straubretti, góð tónlist og krumpaður þvottur eiga vel saman, fær mig til að hugsa jafn mikið og góður göngutúr.

Er að hugsa um að fá mér gæludýr, fiskur í búri yrði eini möguleikinn hér á görðunum. Frá barnæsku hef ég alltaf vorkennt fiskum í búri, mér finnst þeir svo innilokaðir og svo synda þeir á vegg. Þeir gætu verið að synda í stóru vatni og kannað margar holur og hæðir en í staðin eru þeir lokaðir inni og eina sem þeir fara er í hringi. Kisur eru betur staddar þær geta farið út, skoðað fugla í trjám og elt mýs.

Ætli ég sé fiskur í búri

Sá að Fréttablaðið er sammála mér, sagði strax og ég sá Birgittu Haukdal dúkkuna frumsýnda hjá Gísla Martein að hún væri nú bara líkari Ruth Reginalds en Birgittu sjálfri. Ruth er líka með of stóran haus miðað við búk eins og dúkkan. Ég hugsa að ég fái kríp ef ég kem að barni leika sér að þessari dúkku, eitthvað óhugnalegt við hana, eins og andsetið barn í hryllingsmynd.
Hugsa líka að Birgitta hafi orðið fyrir vonbrigðum með þessa eftirmynd, hefur líklega frekar verið að vonast eftir sjálfri sér líkari barbí en ekki sem tröllahorrorRuthareftirmynd.

22 nóvember 2004

Furðulegur assskoti þetta líf

Föstudagskvöldið var brilliantttt, vín flæddi, matur góður, stuð og stuð.....hvað getur verið annað en stuð þegar níu stúlkur koma saman með margar hvítvínsflöskur.
Allt leit út fyrir slæma þynku daginn eftir en málin björguðust fyrir horn og ég varð hin hressasta eftir umþb tveggja tíma blót og dott.
Ættingjarnir sem ég hitti á laugardeginum sáu ekki að ég var nýdjömmuð sem gerir það að verkum að mér er óhætt að vera þunn í komandi jólaboði....enda ekki vön öðru.
SSShhhiiittt hvað ég meika ekki þau jólaboð og þær fermingarveislur sem eru framundan, hugsa að ég fari á karlaleigu og troði púða undir kjólinn til að drukkna ekki í hinu klassíska spurningarflóði.
En fyrst ætla ég að hafa áhyggjur af prófunum sem skríða æ nær og nær.

Svo varð ekkert úr rútuferðinni

21 nóvember 2004

Segi ykkur frá veislunni seinna.....þegar ég man eftir henni.

19 nóvember 2004

Þetta er uppáhalds dagurinn minn.
Enda ekki nema 24 ár ;) síðan ég fæddist. Ég verð nú að segja að það hefur ekki ennþá laumast nein aldurskrísa inn í huga minn, enda ung og fersk.... sex ár í þrítugt og svona, nægur tími til að fá krísuköst. Skil ekki fólk sem óttast að verða þrítugt, eins og það verði bara miðaldra þá og þegar. Ég er á því að um þrítugt hefjist lífið, þá er maður orðin formlega fullorðinn.

Frétti í dag að það sé himininn sem er grænn en grasið blátt.

Sá líka geimskip á sveimi yfir háskólasvæðinu

Skil ekkert í því afhverju Gísli Marteinn var kosinn forsætisráðherra.

Það er margt undarlegt á sveimi hér í heimi.

18 nóvember 2004

Nú er Kuldaboli í veseni.

Það er snjór úti og hálka og ég á bíl (sem sumir vilja ekki kalla bíl). Bíllinn, sem oft er kallaður Gráman, er ennþá á sumardekkjum. Þetta væri ekki frásögu færandi nema að vetrardekkin eru í klukkutíma akstursfjarlægð sem krefst þess að keyra þarf yfir heiði. En þar sem bíllinn er á sumardekkjum þá kemst ég ekki yfir heiðina og get ekkert keyrt, nema það komi snögg hláka. Reyndar fæ ég vetrardekkin næsta mánudag afhent í bæin en málið er að ég þarf að komast á milli staða í bænum og yfir heiðina á laugardagin en þá er ég að fara að hjálpa til í veislu ættingja.
Í augnablikinu lítur allt út fyrir að ég þurfi að taka rútu austur fyrir fjall á laugardagin, þunn......já þunn og þreytt. Ég get ekki tekið rútu, mér finnst leiðinlegt í rútu. Rútur eru fullar af furðulegu fólki og krefjast þess að ég þurfi að fara inn í Hveragerðisbæ. Seinast þegar ég tók rútu sat kona nálægt mér sem talaði í síman alla leiðina. Hún talaði hátt og umræðuefnið var þvagrásasýking sem vinur hennar þurfti að leggjast inn á sjúkrahús vegna. Mér verður alltaf illt í maganum og fæ höfuðverk í rútum. Ég get ekki rútur :(

Undirbúningur fyrir föstudagskvöldið er á fullu, matseðill er ákveðinn fyrir utan eftirrétt..... en stefnan er að toppa vinkonu mína, sem hélt seinasta matarboð, í eftirréttamálunum og það mun reynast erfitt. Held að ráðið sé að sulla nógu mikið af sherrí, brandí eða víski í e-n búðing eða rjóma og bera fram......hvernig ætli romm og Royal búðingur fari saman?

Allt er að gerast, allt er að gerast....

16 nóvember 2004

Ég labbaði Ægisíðuna, veðrið alveg stillt, nýfallinn snjór.
Himininn bleikur, loftið kyrrt og kalt.
Nakin tréin hafa fengið nýtt hlutverk, núna bera þau snjó í staðin fyrir lauf.
Allt landið er þakið þykku og jöfnu lagi af snjó, ósnertum, það er eins og það sé pakkað inn í bómull, tilbúið til fluttnings, varúð! Brothætt.
Um allt mátti sjá brosandi snjókarla, engla og börn.
Friðurinn var algjör fyrir utan jeppa og bilaðan, blikkandi ljósastaur.
Ef það yrði heimsendir á morgun þá er þetta fullkominn endir.

Það var hamingjusöm ung kona sem labbaði um miðbæinn í gær og svei mér þá ef hún var ekki með smá jólafiðring.
Í tilefni ritgerðaskila fór ég á Listasafn Reykjavíkur þar sem sýning á graffískri íslenskri hönnun er í gangi. Sérstaklega hafði ég gaman af gömlum sjónvarpsauglýsingum sem var varpað á tjald, en margar þeirra vöktu upp æskuminningar. Stóð mig meira að segja að því að raula með einni "kartöflur úr Þykkvabænum eru kjarnafæða...."
Eftir listasafnið fór ég á kaffihús og sökti mér í sorprit þar sem ég komst að því hvernig á að daðra á djamminu og hvaða stjörnumerki er best í bólinu, nytsamlegar upplýsingar þar á ferð.

Ég hef komist að því að það er ekki öllum sjálfgefið að vera góðir í að elda mat. Þótt áhuginn og erfðasamsettningin sé fyrir hendi hjá mér þá virðist mér bara ekki takast að galdra e-ð gómsætt upp úr pottum og pönnum. Kvíðahnútur hefur þegar myndast í maga mér fyrir tilvonandi föstudegi en þá hef ég boðið fólki í mat. Stefnan er reyndar að ná fólkinu nægilega drukknu áður en það sest til borðs því að áfengi á að deyfa bragðlaukana og minnka matarlystina.

Mér til mikillar ánægju hef ég eignast þjáningasystur í hlustun á Gesti Einari í morgunútvarpi Rásar 2. Sú manneskja segir reyndar Rósu Ingólfs á Útvarpi Sögu vera enn verri en Gest, hef ég ekki komist í það mikla sjálfspintingarhvöt að ég hafi lagt í að hlusta á þá mætu frú.
Ég og þjáningasystir mín höfum mikið rætt þessa þörf okkar á að hlusta á Gest. Við vitum að við þolum hann ekki en samt kveikjum við á honum á hverjum morgni og pirrumst svo yfir því hvað hann er ömurlegur útvarpsmaður. Það er eins og við séum að reyna á geðheilsu okkar, hvað getum við hlustað lengi á Gest Einar án þess að snappa.

Snjórinn er skítugur í dag, eins og hann var fallegur í gær.

15 nóvember 2004

Að vera á seinasta snúning með ritgerð er góð líkamsrækt.
Við máttum ekki skila seinna en á slaginu þrjú og kl. tíu í þrjú vorum við ennþá að lesa yfir og lagfæra, kl. fimm í þrjú hlupum við í prentarann og á slaginu náðum við að skila. Ekki gafst tími til yfirlesturs og pjatts, eitt hefti í hornið og búið.

Núna líður mér eins og prófin séu búin, þetta var ritgerð sem sveif eins og svart ský yfir hausnum á mér alla önnina, nú er hún farin og orðið heiðskýrt yfir hausnum á mér.
Amk þangað til prófin mæta á svæðið.

Engar helgarsvallssögur eru í boði þennan mánudaginn. Daman leit niður í bæ á föstudagskvöldið, en stillti drykkju sinni í hóf og hagaði sér eins og sannri dömu sæmir. Laugardagsnóttina var vakað lengi yfir ritgerð og skáldsögu sem gerði það að verkum að sunnudagurinn varð eins og sannur þynkudagur með tilheyrandi þreytu, höfuðverk og ísáti.

Nú tekur skipulagning næstkomandi föstudagskvölds við. Seinast voru það brjóstaskorur og nú verður það rassaskorur....nei... tilvonandi afmælisbarn og ellismellur er að velta fyrir sér hvort það eigi að vera aftur svona klikkað kellingapartý eða hvort fágað teiti henti betur hennar aldursflokki.

12 nóvember 2004

Ritgerðarvinna dagsins:

Afhverju ætli heilinn á manni sé svona vangefinn, maður getur alltaf sannfært sig um að það sé nauðsynlegra að gera eitthvað annað en það sem maður á að vera að gera.


11 nóvember 2004

Í morgun vorum við látin taka viðtal við hvort annað í bekknum. Viðtalið við mig snérist um framtíð mína. Þá fór ég að tala um þá stefnu mín að verða bóndi. Þegar ég hafði romsað út úr mér ýmsu um bóndastarfið og ástæður þess að ég vil ekki búa í Reykjavík sagði sú sem var að tala við mig: "Vá ég vissi að það væri draumur hjá þér að verða bóndi en ekki að þú værir svona ákveðin". Og þá fór ég að hugsa enn og aftur "Hvað í andsk... er ég ennþá að gera í háskólanum, afhverju er ég ekki farin í sveitina" og svarið var "þú munt kannski hafa efni á því að kaupa þér jörð (í framtíðinni) en kvóta getur þú aldrei eignast og hver er tilgangurinn að búa í sveit ef maður getur ekki haft kýr?".

Var að heyra að úrvals kynbótahryssur seljist orðið á allt upp í 11 millur, ætli ég geti fallið undir þann flokk.

Er mjög fegin að þetta borgarstjóramál er ekki hagsmunamál mitt (ekki lögheimili í Reykjavík) því ég hef aldrei kunnað neitt sérstaklega vel við tilvonandi borgarstjóra, hefur ekki náð að heilla mig í gegnum skjáinn. Um leið og hún byrjar að tala þá nenni ég ekki að hlusta á hana þótt hún sé mjög klár.

Helgargeðveiki framundan, allt stefnir í ritgerðarvinnu. Reyndar er skólapartý á föstud.kv og sé ég mig tilneydda til að mæta í það.

ESB finnst mér gríðarlega leiðinlegt samband. Eftir að hafa lesið þrjár bækur um það og nokkrar greinar sé ég fyrir mér endalaust pappírsflóð, óskipulag, karlmenn í jakkafötum og martröð þar sem maður hleypur frá einni manneskju til annarar en er alltaf vísað annað, enginn er með svörin því lögin og reglugerðinar eru svo endalaus.

10 nóvember 2004

Það sem ég hugsaði meðan ég reyndi að finna upp á eitthverju sniðugu til að blogga um:

Það tók því að slafra í sig þessari núðlusúpu.
Ég er ennþá svöng, maginn kallar á fastan mat og nammi.
Get ekki látið það eftir mér, fjárskortur og útlitsaðhald.
Samt svöng sko!
Borða kannski bara þessa rófu sem ég er líka með í nesti og kæfusamlokuna.
En hvað á ég þá að borða seinna í dag?
Vítahringur nestisins, það hlýtur að enda með því að ég þurfi að kaupa mér mat í dag.
Helvítis að vera ekki nægjusöm, maginn stór og vill mikið.
Það er dýrt að vera matargat.

09 nóvember 2004

Rafmagnað andrúmsloft morgunsins hefur gert það að verkum að ég er alveg örmagna. Ég aðlaga mig alltaf of vel að því umhverfi sem ég er í á hverjum tíma. Í morgun var nefnilega námsfundur og rædd sú óánægja sem hefur gert vart við sig í náminu. Og vegna þess að allir/flestir í kringum mig voru pirraðir og reiðir þá varð ég það líka. Óþolandi eiginleiki hjá mér.

Allt lítur út fyrir kreisí viku og er hausinn á mér farinn að snúast í hringi af því tilefni.

Og hvað með Kastljósið í gær? Af öllum þessa fjölda kennara sem til er í landinu þá getur liðið ekki sent einn almennilegann, með munninn fyrir neðan nefið, til að tala fyrir stéttarinnar hönd í Sjónvarpinu í gær. Kerlingar auminginn var hrikaleg, stressuð og mismælti sig í gríð og erg en hún mátti eiga það að myndarleg var hún.

Bendi fólki á að fara að líta í kringum sig eftir afmælisgjöfum, merkisdagurinn nálgast sem óð-fluga.

08 nóvember 2004

Sunnudagurinn var ekta:
Smá hrollur eftir djamm, hamborgari, miðbærinn, ljósmyndasýning, Kolaportið, bókabúð, rúntur, bíó, nammi, ekkert lært og farið seint að sofa.

Þið sem sáuð fyrir ykkur svaka svall í gærkvöldi geta dregið úr þeirri ímyndun.
Reyndar var stefnt að svaka svalli en úr varð hinn klassíski miðbæjarrúntur með hæfilegri áfengisdrykkju, frá litlu er að segja fyrir utan að ég fékk mér Hlöllabát í lok kvöldsins.

Þeir sem hafa séð hið fönkí blað Grape vine, sem kom út nú um helgina, er bent á hinn fjallmyndarlega og glæsilega glímumann á forsíðu blaðsins. Kuldaboli og glímumaðurinn eiga það sameiginlegt að eiga sömu foreldra og hafa bæði æft glímu ásamt mörgu öðru. Einnig eiga þau það sameiginlegt að vera einstaklega myndarlegt fólk.

Annað ánægjulegt sem ég rak augun í nú um helgina var í Fréttablaðinu. Þar stóð að rauðhærðir væru í tísku og það væri einnig í tísku að vera með sinn eigin náttúrulega hárlit. Komst ég þá að því að ég væri í tísku eða amk hárið á mér....þetta voru svosem ekkert nýjar fréttir fyrir mér.

05 nóvember 2004

Í dag gerði ég góðverk og er mjög hamingjusöm með það.
Ráð mín urðu til þess að atvinnulaus vinkona mín fékk vinnu, vinnu sem mér var boðin er þurfti að afþakka vegna námsins. Þetta var starf 100% blaðamanns á einu af dagblöðum landsins.
Það var freistandi að hætta námi og fara strax út á fjölmiðlamarkaðinn en ég tók þá ákvörðun að klára það sem ég er byrjuð á. Svo, eftir tvö ár, verð ég verðmætari á markaðinum með masterspróf. Ef mér er ætlað að starfa við fjölmiðla þá kemur tækifærið til þess aftur.
Þessi vinkona mín sem er ný útskrifuð úr bókmennafræði átti þetta svo sannarlega skilið, enda frábær penni.

Önnur djammlaus helgi framundan og núna er míns bara í sveitinni.
Held ég verði samt að kíkja út á morgun, það þýðir víst ekkert að sitja heima, þorna upp og pipra.

Góða helgi kæru vinir og farið varlega þarna úti, það eru víst hálkublettir á heiðum uppi.

03 nóvember 2004

Í kvöld er stjörnubjart og norðurljós á himnum, í kvöld hef ég óbeit á ljósastaurum.

Í kvöld gekk ég framhjá drauma húsinu mínu, í augnablikinu hef ég óbeit á peningum.

Í kvöld lituðu öldurnar tjörnina brúna, það fékk mig til að missa áhugann á brauðsúpu.

Í kvöld gekk ég marga kílómetra því ég kann ekki að hjóla í pilsi og lakkskóm.


Tilgangslausar upplýsingar sem þér koma í raun og veru ekkert við:
- það lekur alltaf úr hægra framdekkinu á bílnum mínum sem gerir það að verkum að ég þarf alltaf að koma við á bensínstöð þegar ég hreyfi kaggann.
-í gærkvöldi sauð ég bjúga og bjó til kartöflustöppu með einnig sem ég þvoði tvær vélar af óhreinu taui.
- það er slæmur hárdagur í dag.
- Mig langar til að hitta Jude Law í eigin persónu.
- Ég bursta jaxlana hægra megin alltaf fyrst og enda á framtönnunum.
- Ég fór á kosningavöku sem Bandaríska sendiráðið hélt í gær í Listasafni Reykjavíkur, það var fróðlegt að sjá og smakka á öllum ókeypis veitingunum. Einnig sem gaman var að horfa á "fræga fólkið" slafra í sig amerískum kleinuhringjum í tonnatali.
- Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart að ég sé í mastersnámi við Háskóla Íslands þar sem mér hefur alltaf fundist sem ég viti ekki neitt og geti ekki neitt. Það kemur mér líka á óvart að ég virðist ætla að verða annað og meira en nefboluhorari það sem eftir er ævinnar...sjáum samt til.
-Ég dansa oft ein heima hjá mér við góða tónlist....samt er ég ekki klikkuð.
-Ég hef bara tvisvar í allan vetur mætt á réttum tíma á morgnanna í skólann þ.e kl 8:15.
-Það leiðinlegasta sem ég geri er að læra heima.
- Nóa kropp er besta nammi í heimi
-Ég á afmæli eftir 15 daga
-Ég kann ekki vel við fólk sem þarf að niðurlægja aðra til að upphefja sjálfan sig.
-Inn í mér leynist ljón sem er bælt af of góðu uppeldi.
-Franz Ferdinand er í miklu uppáhaldi hjá mér núna,hlusta varla á annað.
-Langar í nýja Maus safndiskinn og til að fara á tónleikana með þeim á föstudaginn.
-Ég er skotin í strák sem er furðulegur því hann veit ekki hverju hann er að missa af með því að nenna ekki að kynnast mér almennilega.
-Ég er mikið fyrir karlmenn en það virðist vera að þeir séu ekki mikið fyrir mig.
-Mér finnst orðið leiðinlegt að blogga
-Ég er í kjörþyngd og svolítið undir hámarki hennar
-Ég er tæplega 180 cm á hæð
-Rauða hárlitinn hef ég frá móður minni.
-þegar ég var 13 ára hugleiddi ég einu sinni sjálfsmorð þegar ég var að moka flórinn í fjósinu, í dag finnst mér gaman að moka flórinn.
-Í staðin fyrir að lesa skólabækur er ég að lesa Bettý eftir Arnald Indriða.
- Ég fæ martraðir um snáka og kóngólær
- Mér finnst gaman að taka til og þrífa
- Mér finnst leiðinlegt að elda mat en gaman að baka
-Ég verð oft hamingjusöm fyrir annara hönd
-Ég gleymi öllu sem mér er sagt og flestu sem ég hef lært
- Ég hef margt betra að gera en að skrifa gagnslausar upplýsingar niður


02 nóvember 2004

Það var eins og maðurinn mælti.........
...hlýindin í morgun tendruðu ánægjuhroll í hjarta mér. Jakki í staðin fyrir úlpu er minn stíll, fíla samt trefla.

.........get ekki skrifað..........heilinn á mér er líkt og loftlaust dekk.......of mikil hópavinna.

Verð samt að segja þetta: Kosningavaka í nótt, ég er ekki vongóð um að þau úrslit muni leiða til breytinga í heiminum.

Og annað: Lítið af asnalegu fólki hefur orðið á vegi mínum að undanförnu, er ég hætt að taka eftir eða er ég sjálf orðinn partur af þeirri mannlífsflóru?


01 nóvember 2004

Það er nú ekkert öðruvísi en það að nýliðin helgi var áfengis- og djammlaus. Það hefur ekki gerst hjá mér í langan tíma enda er ég bara ennþá hálf undrandi á þessu háttalagi mínu.

Á föstudaginn fór ég á Úlfhamssögu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Þetta var flott uppsetning með flottri tónlist en sagan skilaði sér ekki nægilega vel. Annars mæli ég með þessu fyrir alla nema framhaldsskólanema...það sat nefnilega gaur við hliðina á mér sem var á sýningunni vegna þess það var skylda í íslenskuáfanga í skólanum hjá honum. Það var sko annaðhvort að "lesa eitthverjar 60 síðna bók eða fara á leikritið", hann valdi leikritið en sagði sjálfur að þótt hann hefði kannski ekkert betra við tímann að gera þá vildi hann gjarnan vera annarsstaðar (ég heyrði á samtal hans og annars). Svo var hann alltaf að kíkja á klukkuna í gegnum sýninguna, fikta í gsm símanum sínum og hrista fæturnar óþolinmóður.

Laugardagskvöldið fór svo í vinnu þar sem ég var minnt enn og aftur á það hversu leiðinlegt drukkið fólk getur verið, sérstaklega drukkið fullorðið fólk í óvissuferð.

Kjörorð komandi viku er dugnaður, nú skulu hendur dregnar fram úr ermum, verkefni kláruð og blaðsíður lesnar.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?