<$BlogRSDUrl$>

30 mars 2005

Páskafríið var með rólegasta móti. Tvær fermingarveislur, kvef, kökur, kýr. Fór ekkert út á lífið né lét bakkus plata mig í drykkju.

Komst að því í dag að ég er að verða eins og hver annar íslendingur í græjumálum..........seinasta sumar keypti ég mér nýjan gsm síma með myndavél (sem ég nota aldrei) og hætti þá að nota Nokia hlunk síma sem ég hafði átt síðan ´98, seinasta haust keypti ég mér fartölvu og hafði þá aldrei átt tölvu fyrr og nú um páskana lét ég mág minn kaupa handa mér ipod mini í London svo ég geti verið með tónlist í eyrunum allan sólarhringinn. Núna vantar mér bara dvd spilarann.......nej held ég fái mér ekki einn svoleiðis enda vídeóið mitt ennþá gott og lítið notað.
Jú reyndar á ég ekki digital myndavél, bara gamla fermingarvél með filmu og svoleiðis lúmmó.
Verst er að þó ég eigi þessar græjur þá hef ég engann áhuga á þeim og nenni ekki að læra á þær meira en nauðsyn krefur til grunn notkunar.

Kannski ég fái mér nýjan bíl næst......nei almáttugur ég má ekki láta Grámann ´88 árgerð heyra þetta enda er hann hinn vænsti fákur og kemur mér allt sem ég þarf að fara...amk en sem komið er.

25 mars 2005

Fékk einn mesta kjánahroll ársins þegar Bobby Fischer kom til landsins í gærkvöldi í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Það lá við að ég skammaðist mín fyrir að vera íslendingur. Þvílíkt umstang og fjölmiðlafár í kringum einn karlfausk og svo núna eru fjölmiðlarnir að rífast um hvers vegna einn fékk viðtal en ekki hinn. Ég myndi nú frekar stæra mig af því að vera eini fjölmiðillinn sem hafði sjálfan sig ekki að fífli og eyddi ekki stórfé í að sýna beint frá komu þessa "íslendings".
Ég er nú ekki stuðningsmaður mannréttindabrota og er á því að það hafi verið komið illa fram við Bobby en fyrr má nú asskotinn vera að gera svona umstang út af einum manni, það er fullt af fólki sem þarf á miklu meiri aðstoð en hann. Ég held líka að íslendingar verði aðeins að fara að endurskoða þennan "íslandsvina" hugsunarhátt.
En núna erum við búin að bjarga honum og ættum að geta snúið okkur að mikilvægari málum.

Gleðilega páska og farsælt komandi sumar.

Dásamlegt veður í dag, verst að ég hef eytt mest af deginum inni við að lesa um lýðræðisríki og glanstímarit.

Ég komst loksins í sveitina í gær eftir of langa legu í höfuðborginni, stefnan er að vera hér fram yfir páska og jafnvel að kíkja út á lífið á Selfossi....sé reyndar ekki fram á að það gæti orðið gaman.

Seinasta föstudag lauk ég fimm daga starfsnámi á Morgunblaðinu, það væri ekki í frásögu færandi nema ég fékk fjögur viðtöl birt og mér var boðin sumarvinna.
Seinasta starfsþjálfunardaginn var ég boðuð inn á skrifstofu eins ritstjórans, ég varð drullu hrædd og hélt að ég hefði klúðrað eitthverju, sérstaklega þar sem ég hafði átt í vandræðum með tölvuna og sem lausn þá ýtti ég á flest alla takkana á lyklaborðinu og var því komin með áhyggjur af að ég hefði eyðilagt fréttaforrit blaðsins. En það var nú aldeilist ekki málið heldur var mér boðin sumarvinna. Ég var nú gríðarlega ánægð með það...............en náðuga sumarið sem ég stefndi á að eiga er líklega ekki lengur inn í myndinni.

geisp geisp geisp held ég skokki út í fjós og mjólki nokkrar kýr.

20 mars 2005

Mér finnst:

-Þátturinn Í brennidepli algjör snilld, vildi hafa hann oftar en einu sinni í mánuði. Páll Benediktsson er líka minn uppáhalds fréttamaður. Þátturinn er áhugaverður og vel unninn.

-Örninn, danski lögguþátturinn með íslenska ívafinu líka góður. Danir kunna að gera góða sjónvarpsþætti. Örninn vekur athygli á vandamálum í samfélaginu t.d fjallaði þátturinn á áðan um mansal.

-Aðþrengdar eiginkonur frábær þáttur. Nýi uppáhalds sjónvarpssápuþátturinn minn. Fimmtudagskvöldin eru aftur orðin sjónvarpskvöld hjá mér en enginn þáttur hafði náð að fylla upp í skarðið sem Beðmál í borginni skildi eftir sig fyrr en nú.

Annað

Algjörlega óvart var partý heima hjá mér í gærkvöldi, tveir stórgóðir vinir mínir sem búa í Danmörku voru á landinu og það kom ekki annað til greina en að halda teiti þeim til heiðurs. Reyndar var búið að skipuleggja það annarsstaðar en sá húsráðandi veiktist á seinustu stundu, þannig að ég hljóp í skarðið og bauð fram mitt stóra húsnæði. Þetta var stórgott partý með evróvisjón kryddi. Síðan var kíkt á Naustið, Rex og Pravda, get ekki sagt þetta mína staði en ég skemmti mér vel enda búin að torga svolitlu magni af alkóhóli.

Í fyrsta skipti síðan ég flutti á garðana dinglaði nágranni hjá mér og kvartaði undan hávaða. Mér fannst það í góðu lagi en svolítið skrítið þar sem hávaðinn var ekki mikill (við vorum búin að spila tvö lög smá hátt) og klukkan var ekki orðin eitt á laugardagskvöldi.
Ég hef einu sinni dinglað og kvartað hjá nágranna, en það var klukkan fimm á fimmtudagsnóttu og þau voru búin að spila tónlist mjög hátt í amk klukkutíma áður en ég ákvað að skríða framúr og biðja þau um að lækka. Og ég bað þau um að gera það án þess að vera dónaleg sem er ólíkt nágrannanum sem dinglaði hjá mér.
Annars eru svona óskráðar reglur á görðunum að partý hávaði er leyfilegur til svona tvö um helgar en um tólf á virkum dögum.

14 mars 2005

Þetta verður stutt í dag.

- Helginni var varið í sveitinni í faðmi foreldra og ferfætlinga.
- Ekki var smakkaður dropi af áfengi en mikið drukkið af kaffi.
- Leit ekki í námsbók
- Vikan er "kræsí", er í starfsnámi á Mogganum ásamt því að stunda skólann af kappi.
- Finnst eins og það sé komið sumar út um gluggann en kemst að því að svo er ekki þegar ég fer út fyrir dyr klædd eins og sumarpæja.
- Ég er gríðarlega forvitin en þrátt fyrir það er ég með lélegt fréttanef.
- Ég er með vel lagað nef en aflagaði það aðeins þegar ég fékk mér lokk í aðra nösina í 18 ára uppreisninni. Það gerði nasavænginn þykkari.
- Var líka með samanlagt átta göt í eyrunum á þessum tíma, þau eru lítið notuð í dag.
- Þetta allt var afleiðing þess að fara sem aupair til Englands og kynnast kránunum.
- Annars hef ég það bara fín, fyrir utan að vera svöng og vita ekki hvað ég á að elda. Hugsa að þetta endi í afgangssulli.

08 mars 2005

Horfði á heimildamynd um mansal á áðan, hrottalegt helvíti. Velti fyrir mér hvernig í asskotanum þetta getur átt sér stað í veröldinni ...ásamt öllum hinum viðbjóðnum reyndar.
Það lenda nokkur hundruð konur á hverjum degi í þessu og stór hlutinn á sér stað í Evrópu. Það var rætt við mann sem kaupir sér vændi og hann var ekkert að gera sér grein fyrir þessu, sagðist stundum sjá barðar og marðar mellur en vildi ekki horfast í augu við það, sagði það ekki koma sér við. EN málið kemur öllum við og með því að kaupa sér vændi er fólk að styrkja mansal.
Súlustaðseigandi sagði þetta eiga sér stað því eftirspurnin væri svo mikil, hvað er að mönnum..... djöfulsins afbakaða og viðbjóðslega kynlífsvæðing. Að kaupa kynlíf af þeim sem velja sér það sem atvinnu er svosem í sæmilegu lagi en það er bara ekki svo stór prósenta af "markaðnum", stór hluti þeirra er neyddur til þess.
Afhverju getur ekkert verið heilbrigt í þessum heimi.

Staupasteinn er kominn aftur á skjáinn, frábærir þættir sem kveikja æskuminningar og bros á vör.

06 mars 2005

Vá þetta var meiri helgin.

Árshátíð á föstudagskvöldinu á Hótel Sögu. Það var stuð og mjög vel heppnuð skemmtun. Ég var kosin líklegust til að verða fréttaþulur af okkur í bekknum. Ég drakk mikið rauðvín. Ég var svaka pæja í kjólnum mínum. Eftir skipulagða dagskrá og smá dans á Sögunni hélt hópurinn á tónleika Brúðarbandsins á Grand rokk. Aumingja Gugga bekkjarfélagi og meðlimur í Brúðarbandinu þurfti að þola uppstrílaða, fulla og skemmtilega bekkjafélaga fremst við sviðið sem fögnuðu henni mikið. Yrði ekki hissa þó hún mætti ekki framar í skólann.

Verð samt að segja að þótt að tónleikar Brúðarbandsins hafi verið góðir þá slóu Carreras tónleikarnir þeim út. Semsagt þá fór ég á Carreras á laugardagskvöldinu í fylgd bróður míns. Ég vann tvo miða í gegnum tónlistarklúbb Mastercard og sé ekki eftir því. Svona tónleika fer maður ekki á oft á ævinni og þvílík dásemd...nammi fyrir eyrun.

En það sem er ekki nammi fyrir augun er kvikmyndin Constantine. Fór á hana í bíó á áðan og hún var svo leiðinleg að hún var fyndin. Ekki 100 kr virði.

Var í starfsnámi á Rúv útvarpi föstudag og laugardag og komst að því að mér finnst það skemmtilegra en aðrir miðlar. Útvarpið er alltaf fyrst með fréttirnar. Gaman að sjá hvernig fólkið á bak við raddirnar lítur út. Verst að ég varð svo svöng af að heyra þá sem lesa hádegisfréttirnar tala. Frá barnæsku hef ég hlustað á útvarpsfréttirnar í hádegismatnum og um leið og ég heyrði þetta fólk tala þá fóru garnirnar af stað.

Fyrir utan bíóferð kvöldsins var sunnudagurinn yndislegur. Slæpingur og slæpingur og tiltekt því íbúðin var orðin ruslakista eftir annir vikunnar.

kveðja í bili

01 mars 2005

Vikan hálfnuð og ég ekki ennþá með á nótunum.

Starfsnám á virtum ríkismiðli hefur tekið tíma minn að undanförnu og mun gera áfram, sjónvarpið í upphafi viku og útvarp í lok hennar.

Mars er kominn, árshátíð á næsta leyti. Megrunin í kjólinn þarf að fara af stað ekki seinna en núna. Hugsa ég láti frekar soga smá súkkulaði af lærunum í anda The Swan sem er líklega óhugnalegasta sjónvarpsefni sem ég hef séð í langan tíma. Var sorgmædd af að sjá fallegar konur sem héldu að hamingjan væri í amerískri staðalímyndarfegurð.

Pæling: Virk samkeppni???? M.v fjölda matvörubúða og -keðja í landinu ætti hún að hafa verið til staðar fyrir og það hefði ekki átt að þurfa að flauta hana af stað eins og íþróttaleik.

Geisp, hommarnir að tískast í kassanum, ólesnar bækur í hillunni, óvirkur heili í höfðinu. Ekki nema von að ég sé ekki með á nótunum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?