<$BlogRSDUrl$>

28 apríl 2005

Hvað get ég sagt ykkur????

Fékk það staðfest í dag að ég byrja á Morgunblaðinu næsta þriðjudag, þannig að það verður ekkert vorfrí þetta árið. Hlakka til en kvíði líka smá fyrir.....hrædd um að klúðra málunum og standa mig ekki vel, t.d að spyrja viðmælendur asnalegra spurninga og verða vís að fáfræði. En jæja mistökin eru til að læra af þeim.

Hef jafnað mig á próf #%$&*/, ákvað bara að gefa skít í metnað og vona að ég nái fimmu.

Ég horfi nú á náttborðið mitt og á því er eftirfarandi:

- tvær túpur af handáburði
- vekjaraklukka
- lampi
- Eddie´s Bastard eftir William Kowalski - frábær bók sem ég búin með 1 x en langar að lesa aftur.
- Ég lifi eftir Martin Gray - byrjaði á henni fyrir löngu en hún hefur verið í góðri pásu..þarft að klára hana.
- Lazy ways to make a liwing eftir Abigaeil Bosanko - bresk kerlingarbók sem ég hef ekki byrjað á og veit ekki hvort ég geri það.
- Gylting eftir Marie Darrieussecq - frábær bók með svartan húmor sem ég hef lesið amk einu sinni en langar að lesa aftur. Er um konu sem breytist í svín en það er bara yfirborðsmyndin, boðskapurinn er nefnilega góður.
- The worst case scenario: Survival handbokk: Dating & sex. Ættingjar sem telja sig voða fyndna gáfu mér þessa bók í afmælisgjöf með von um að hún kæmi mér að gagni í að "ganga út". Hef hvorki farið á stefnumót né stundað kynlíf síðan ég fékk hana svo ráðin í henni hafa ekki komið að gagni ennþá.
- Saga augans eftir Georges Bataille. Þessi verður lesin næst.
- Sól í Norðurmýri, um Megas. Aðeins byrjuð og þykir kúl.
- Veröld okkar vandalausra eftir Ishiguro. Nei það var þessi bók sem ég ætlaði að lesa næst.
- Ritið: Tímarit Hugvísindastofnunar um Staðleysur. Er áskrifandi að þessum ritum og glugga reglulega í þau.
- Bókatíðindi 2004. Hemmm hvað er þetta ennþá að gera á náttborðinu.
- Body for Life eftir Bill Phillips. Er að lesa mér til um mataræði, mun samt aldrei fara eftir þessu en er ágæt í að telja mér trú um að ég muni gera það.
- Red, glanstímarit. Bara svona til að fylgjast með stefnum og strumum í tískunni og til að lesa eitthvað sem þarf ekki að hugsa yfir.

Vá hvað það er mikið á náttborðinu mínu og það er einu sinni ekki stórt. Ætla að drífa í því að klára þessar bækur. EN nei annars það er komið sumar og þá hangir maður ekki yfir bókum.

Stefnir í svaka bekkjarpartý og á morgun, vísindaferð, út að borða og svo partý. Gerist ekki betra.

25 apríl 2005

jæja nú er einu hræðilegasta prófi á mínum námsferli lokið.
Það var í morgun og var munnlegt.
Ég var mjög vel lesin fyrir það, vissi að mér myndi ganga vel, fékk mjög góðar og sanngjarnar spurningar hjá kennaranum og hefði svo getað rúllað þeim upp ef ég hefði ekki FROSIÐ.
Ég hef aldrei lent í öðru eins, fyrir prófið fékk ég rosa stresskast, hjartað á trilljón og mikið mál að æla og stressið hvarf ekkert þegar ég fór í prófið heldur bara jókst. Þurfti að taka svaka öndunaræfingar fyrir framan kennarann og prófdómarann til að ná mér niður og svona. Svo þegar það kom að því að svara stamaði ég og hikaði og gat ekki sagt neitt nema eitt og eitt samhengislaust orð. Þetta var ógeð sérstaklega þar sem ég vissi að ég vissi svörin en kom þeim bara ekki út á mannamáli. En þetta próf er búið og ég vona bara að ég þurfi ekki að endurtaka það.

Annars er ég búin í prófum og á bara smá verkefna vinnu eftir.

Þeim sem vantar félaga til að gera allt mögulegt og ómögulegt mega nú hafa samband við mig því ég þarf ekki lengur að hanga yfir bókum.

Var ég búin að segja ykkur að vorið er komið?

15 apríl 2005

Í tilefni þess að ég sit á Bókhlöðinni með höfuðverk og er að skrifa ritgerð þá ætla ég að segja ykkur frá ýmsu sem hefur á daga mína drifið að undanförnu.

Aðeins einn kennsludagur er eftir af skólanum. Mig er farið að þyrsta í að komast út í vorið, fá mér ís og sletta úr klaufunum. Sem betur fer er aðeins eitt próf hjá mér og það er munnlegt í lok apríl, en í staðin fyrir próf er fullt af verkefnum sem þarf að skila.

Ég gerðist hápólitísk í gærkvöldi og fór á fund sem Heimdallur og Framsóknarmenn í Rvk. suður héldu um EES samninginn. Það var semsagt verið að velta fyrir sér hvort EES samningurinn væri úreltur. Mér fannst þetta áhugavert og nokkuð skemmtilegt enda uppfull af ESB skoðunum eftir kúrs sem ég sat í fyrir áramót. Ég meira að segja þorði að bera upp spurningu fyrir framan alla þessa vatnsgreiddu sjalla.

Í kvöld er skólapartý og á morgun er selfosspartý og hinn er fermingarveisla.....hhemm og ég sem ætlaði að læra svo mikið um helgina. Ætti kannski að athuga hvort Reynir Trausta geti selt mér eitthvað eða kannski ég fái mér bara vökustaura. Annars yrði kannski best að ég léti ekkert renna af mér á milli atburða því það er svo gott að læra aðeins kenndur því þá verður maður hæfilega kærulaus og hættir að velta sér upp úr smáatriðum. Kannski ég mæti bara full í fermingarveisluna líka....það væri nú í takt við það álit sem ættingjarnir hafa á mér.

Hemmm en hvað hefur nú drifið á daga mína........?????? jú ég á nú orðið grænan ipod sem er fastur við eyrun á mér. Bíllinn minn heldur áfram að ryðga. Ég er alltaf að skúra. Ég bjó til ógeðslegustu karrýsósu sem um getur um daginn, hún fór beint í vaskinn. Annars gengur þetta allt sinn vana gang.

Kveðjur

05 apríl 2005

Ég ætla að taka mér smá hlé frá bloggskrifum. Er orðin löt og áhugalaus um þetta tjáningarform ásamt því að þessi seinasti skólamánuður er brjálaður í verkefnaskilum.
Hafið það gott þangað til næst.

01 apríl 2005

1. apríl.......það sem maður reyndi ekki oft að plata fólk á þeim degi á sínum yngri árum, reyndar oftast með hallærislegum "það er síminn til þín" hrekkjum.

Blöðin virðast orðin léleg í að semja gabbfréttir því ég sá þær strax bæði í Fréttablaðinu og Mogganum. Ég ætla ekki að segja ykkur hverjar þær eru með von um að þið hlaupið fyrsta apríl.

En vill einhver koma með mér í Smáralindina kl 12 í dag? Bobby Ficher verður þar og býður íslensku þjóðinni í fjöltefli.
Svo langar mig líka rosalega til að mæta á hafnarbakkann kl fimm í dag en þá mun Coldplay taka upp myndband þar og það vantar statista.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?