<$BlogRSDUrl$>

29 ágúst 2005


22 ágúst 2005

Það er fátt meira kósi en að eiga mánudagskvöld fyrir sig.
Þetta mánudagskvöldið, þvoði ég þvott, tók til, vaskaði upp, fór með blöð í endurvinnslu, horfði á sjónvarpið og hlustaði á tónlist. Núna á ég bara eftir að leggjast upp í rúm og lesa svolítið fyrir svefninn. Hugur minn er eitthvað svo yndislega yfirvegaður núna að ég get bara ekki rifið kjaft yfir neinu. Held ég setji frekar hreint utan um rúmið en að rembast við skriftir hér.

18 ágúst 2005

Seinustu dagar hafa verið afturábak og áfram.

Klukkan átta í gærmorgun keyrði blind miðaldra kerling sem kann ekki að keyra aftan á glæsikerruna mína og beyglaði hana smá. "Ég sá þig ekki" var hennar afsökun ...hvernig í andskotanum er ekki hægt að sjá heilan bíl.

Ég gisti seinustu nótt á Blönduósi og dvaldi í bænum í einn dag. Þar býr skemmtilegt og stundum skrýtið fólk en aðallega bara ágætis einstaklingar. En bærinn sjálfur er er er er heeemmmm ...bær við þjóðveginn sem á rennur í gegnum með slatta af íbúum og húsum og einni búð, fínu kaffihúsi og tveimur sjoppum. En Hvammstangi finnst mér meiriháttar staður, ennþá minna um að vera þar en á Blönduósi en einhvernvegin bara skemmtilegri. Skagaströnd var svo frábær, lét Hallbjörn næstum því plata mig í að gerast kúrekastelpa.

Samt alltaf jafn dásamlegt að komast út úr höfuðborginni.

Smá ferðaráð: Ekki borða mikið af fjólubláum tröllatópas þegar þið eruð lokuð inn í litlum bíl í langan tíma.

15 ágúst 2005

Þeir sem þekkja mig vel vita að ég er gríðarlega mikið fyrir ís.

Í gær var ég búin að hugsa um ís úr vél lengi og lét svo verða að því eftir kvöldmat að skjótast út í sjoppu og kaupa mér einn bragðaref. Hálf slefandi á búðarborðið pantaði ég mér einn með jarðaberjum, nóakroppi og snikkersi eins og vanalegi. Ég var svo hamingjusöm með ísinn að ég flýtti mér heim aftur til að fá að njóta hans í sófanum, glápandi á sjónvarpið. Heimferðin gekk slysalaust og náði ég tveimur skeiðum á rauðu ljósi en svo þegar ég geng inn heima hjá mér, með bragðarefinn í annarri og vídeóspólu í hinni, þá missir bragðarefurinn jafnvægið í lúkunni á mér og fellur í gólfið á óskiljanlega hægum hraða (að mér virtist) og hann fer út um allt. Það lá við að ég stykki á eftir honum á gólfið og sleikti hann upp eins og köttur lepur mjólk. EN nei nei í staðin fyrir að fá ísfullnægingu þá eyddi ég kvöldinu í að þrífa þessa dásemd upp af gólfi og veggjum. Ég horfði svo næstum því grátandi á vídeóið því góð mynd er ekki eins góð ef ís er ekki til staðar.

Þetta er örugglega svipað svekkelsi og að fara heim með draumaprinsinum og komast svo að því að hann er dvergvaxinn að neðan eða eins og að opna stóran jólapakka með mikilli tilhlökkun og komast að því að hann er bara plat stór og inniheldur sokkapar. Eða að stunda svaka kynlíf og vakna svo upp í miðjum hasar og komast að því að manni er bara að dreyma. Æi svona ..þið vitið ..mikil tilhlökkun og miklar væntingar sem verða svo ekki að neinu. Ég varð svo brjáluð út í þennan ís, þið skiljið HA?

Ég hef á tilfinningunni að Blönduós sé góður staður.

12 ágúst 2005

Kæra dagbók.....bleblelblebleblebleblelbleblelbl

Undanfarnir dagar hafa verið þétt skipaðir, ég hef farið út snemma að morgni til vinnu og yfirleitt komið heim eftir klukkan eitt að nóttu. Stundum hef ég hlaupið heim á milli atburða til fataskipta. En tvisvar í þessari viku hef ég farið í saumaklúbb, ég hef talað fyrir mánuðinn og mun líklega ekki finna þörf til að tjá mig á næstunni. Að hafa hest á höfuðborgarsvæðinu tekur tíma en eykur ánægju, Eldingu minni þarf ég að sinna daglega og kann hún svo sannarlega að meta hugulsemi mína því hún hefur bara drepið mig næstum því tvisvar. Svona er þegar tvær rauðhærðar kvenkyns skepnur af sitt hvorri tegund mætast, báðar þrjóskar og vilja ráða ferðinni.

Annars ætti ég frekar að eyða þessu bleki í vinnutexta en blogg.

02 ágúst 2005

Það er orðið dimmt á nóttunni svo það er best að rísa úr rekkju.

Auglýsi hér með eftir balli með Rúnari Júl sem átti sér stað á Útlaganum á Flúðum seinasta laugardagskvöld. Mikið af skemmtilegu fólki var víst á staðnum og stemning góð. Ég var víst aðalstjarna ballsins en fyrir utan mörg dansspor þá eru minningar þessa kvölds gloppóttar og get ég ekki staðfest þessar sögusagnir. Heyrst hefur þó að ég hafi keypt mér pizzusneið um mitt ball og skuldi ennþá 150 krónur af henni, að ég hafi borið ölvunina gríðarlega vel og ekki verið vinum mínum til skammar og hvað þá litið út fyrir að muna ekki neitt daginn eftir. Já svei mér þá...ég ætti að skammast mín.

Verslunarmannhelgin var semsagt góð skemmtun, ennþá er líf í gömlum glæðum og vinahópurinn getur svo sannarlega átt góðar stundir saman þrátt fyrir háan aldur.


Annars er sumarið búið að vera gott og hefur liðið allt of hratt. Það sem hefur aðallega gengið á hjá mér er eftirfarandi:
- Vinna, vinna, vinna
- Litið örsjaldan út á lífið í Reykjavík en meira farið í sveitina um helgar og skroppið á hestbak og mjólkaðar kýr
- Farið í eftirminnilega ferð til London með litlu systur og komist að því að það barn er stór spillt og ekki allt þar sem það er séð þegar hún er komin úr heimahögum. Virðist vera að hún hafi tekið mig til fyrirmyndar.
- Laufaskörð og Móskarðshnúkar klifin með meðlimum í fjallaklúbbi..... fátt skal sagt annað en að ég held að hvorki lungun né lærin hafi jafnað sig ennþá. Var plötuð í þá ferð á þeim forsendum að hún væri fyrir byrjendur í fjallagöngu en ómæ!!! var móð eins og akfeit geldrolla alla leið upp...en takið eftir ÉG KOMST ALLA LEIÐ UPP OG KVARTAÐI ALDREI NÉ GAFST UPP Á MIÐRI LEIÐ.
- Farið á Esjuna í fyrsta sinn....pís of keik eftir hina fjallgönguna. Tiplaði upp fjallið eins og tágrönn forystukind.
- Hjólaði mikið, meira að segja í vinnuna og upp í Grafarholt
- Fór í hverri viku út að hlaupa nokkra kílómetra, hef aukið þolið en bætt á mig kílóum ... ég kenni kyrrsetunni í vinnunni alveg um þau 2 kíló. Er samt ennþá í kjörþyngd sko.
- Verslunarmannahelgi á Flúðum í tvær nætur. Gítarspil, söngur og dans.
- Annars hefur þetta sumar verið klassík nokkurnvegin. Ég hef unnið mikið, sumarið hefur liðið, ég hef gert nokkuð og flest skemmtilegt, ég náði mér ekki í kærasta né varð skotin í neinum sem er hræðilegt yfir sumartímann því þá þarf maður alltaf að vera skotin í einhverjum til að eyða tímanum í vinnunni í dagdrauma.
- Ef ég er að gleyma einhverju þá bæti ég því við seinna. Svo er náttúrulega allur ágúst eftir.

Bless Bless

This page is powered by Blogger. Isn't yours?