<$BlogRSDUrl$>

24 maí 2004

Sumarfrí

Enda dottin út úr Kuldabola-karakter og komin á persónulegu nóturnar... finnst ég leiðinleg þannig. Kaldhæðnin þiðnaði með hækkandi sól.

Hafið þið það nú gott í sumar og þeir sem vilja halda áfram að fylgjast með lífi mínu er vinsamlegast bent á að hringja í mig.


23 maí 2004

Hamingjan hefur lekið af mér og myndað poll við fætur mér... sem ég trampa nú í. Ég er að traðka hana niður með neikvæðu hugarfari, finnst ég gera allt vitlaust þessa dagana. Stama í návist sætra stráka og segi allt öfugt,ákveð að vera edrú í staðin fyrir full, fæ bólu á hökuna og fleira.....sem er reyndar mjög smávægilegt. Vandamál mín eru mjög lítil, sem betur fer, mitt helsta vandamál er að geta ekki verið kúl þegar ég þarf þess. Er núna með kúlið í þjálfun.

Hef ákeðið að hætta í kynningarvinnunni minni (konan í búðinni sem segir "má bjóða þér að smakka...), fékk viðbjóð á sjálfri mér um helgina þegar ég var búin að segja "þetta er æðislegt brauð sem þarf aðeins að baka við 210°c í 8-10 mín, og svo er það líka svo ódýrt bla bla" um trilljón sinnum á tveim dögum. Þetta er allt of heiladautt fyrir mig, get ekki brosað lengur og verð almennileg nema að ég sé að meina það...svo er fólk sem verslar í búðum líka leiðinlegt.

Fór á hjólauppboð hjá löggunni, sá draumahjólið mitt..svona gamalt konuhjól,ekki með gírum né þverstöng. En það hjól var með þeim seinustu í röðinni og ég þurfti að fara í vinnuna. Samt gaman að fara á uppboð, ég bauð meiraaðsegja í nokkur hjól mér til gamans en fékk þau ekki...maður fyllist kappi og fer óvart að öskra hærri tölur en hitt fólkið, það endaði líka illa fyrir sumum kappsfullum því ótrúlegustu hjóladruslur voru að fara á svaka pening.
Átt þú hjól (sem virkar) sem þú þarft að losna við? Talaðu þá við mig...stefni nefnilega á að hafa stinnan rass eftir sumarið.

21 maí 2004

Halló kæru lesendur

ég fékk bréf í póstinum sem bauð mér inngöngu í mastersnám í blaða- og fréttamennsku við HÍ!!!!!!!!! Ég er núna í skýjunum, hátt, hátt........nú eru aðeins um tvö ár þangað til þið farið að sjá mig í fréttatíma RUV í staðin fyrir Boga og Loga. EN annars er ég smá hugsi því ég nenni varla meiri skóla, langar að vinna, vera kærulaus og eiga pening, ætli maður láti sig ekki hafa það samt og prófi eina önn til að sjá hvernig þetta á við mann.

ANnars er það bara vinna og þetta venjulega sem er að gerast hjá mér.
Það er rigning úti og ég er hamingjusamasta manneskja í mínum heimi....ætli ég geti verið með regnhlíf í dag og sungið í rigningunni??

17 maí 2004

Almenn leti

ég nenni ekki að blogga lengur enda ekki í skólanum og því aldrei fyrir framan tölvu núorðið....en mun punkta eitthvað niður í sumar.

Laugardagskvöldið fór í klassískt og gott Evrópusöngvakeppnispartý, svo farið á Nasa á Partý Páls Óskars og þvílíkt og annað eins af fólki og brjálað stuð..svo var endað á 22 til kl 6 á sunnudagsmorgni. Stuðið var það mikið að ég þurfti ekki að drekka og var því ekki þunn í gær mér til ánægju. Jónsi stóð sig vel og var landi og þjóð til sóma en lagið var kannski heldur rólegt í þessa keppni sem var nú stundum meira í áttina í að vera súlustaðaskemmtun heldur en söngvakeppni.

Þeir sem eru forvitnir mega vita að bróðir minn bloggar ekki..amk svo ég viti.


13 maí 2004

Sveitasæla

Fór úr borgarstressinu í gær eftir að hafa losað mig við lokaritgerðina endanlega.
Núna eru það bara sauðburður og sæt lömb.....amk fram á morgundaginn en þá verður brunað aftur í borgina til að mála bæinn rauðann.

Og hvað með þessa Evrópu söngvakeppnis forkeppni sem var í gær? með því hallærislegasta sjónvarpsefni sem ég hef séð en jafnframt skemmtileg, og að mínu mati þá komust bestu lögin ekki áfram, það er greinilegt að norðurlöndunum mun ekki ganga vel í þessari keppni því það er austur-evrópa sem ræður ríkjum...og þá þarf maður að syngja með nefinu hallærislegan diskósmell, vera í hvítum gallabuxum og með sítt hár...helst svolítið ´80, sem er jú reyndar í smá tísku.

11 maí 2004

Hehehehe ég er að plata alla á bókhlöðunni

Ég er með ferðageislaspilara og það halda örugglega allir að ég sé að hlust á töff tónlist...líklega breska, en ég er að hlusta á Álftagerðisbræður og það liggur við að ég taki næsta karl í smá ræl og vals hér á gólfinu. Það upplýsist hér með að ég er einlægur, og líklega yngsti, aðdáandi Álftagerðisbræðra og á meira að segja disk með þeim. Einnig hef ég gaman af að hlust á karlakóra og á einn disk með karlakórnum í Borganesi, uppáhalds lögin mín á honum eru Hraustir karlmenn og Brennið þið vitar. Plús að finnast Haukur Mortens snillingur. Þessi gerð af tónlist kemur mér alltaf í stuð auk þess get ég sungið með henni.

Ó vei ó vei ég er svo gömul sál.

Ljósbrá það er sífellt sumar..og meðan blómið angar með bljúgu hjarta ég minnist þín...og svo tangóspor með...hver vill bjóða mér upp í dans?

(þessi færsla vísar til þess að ég var að klára prófin og verð endanlega búin í skólanum á morgun...hamingja mín er ótakmörkuð)


10 maí 2004

Þessi frétt var á Baggalút, mér finnst þetta góð hugmynd...en kannski smá ótti hjá mér um að ég þurfi að framkvæma hana.....einhverjir sem bjóða sig fram í hlutverk?

Nokkrir brottfallnir nemendur úr Heimspekideild Háskóla Íslands gerðu sér lítið fyrir nú um helgina og útskrifuðu sig sjálfir. Nemendurnir fyrrverandi hafa allir reynt til þrautar að ljúka námi við skólann án árángurs.

Hópurinn tók sig því saman og leigði sér kufla fyrir athöfnina, þá var og atvinnulaus leikari fenginn til að fara með hlutverk Rektors. Að lokinni útskriftarferð til Köben munu flestir hverfa aftur til starfa í bókabúðum borgarinnar.


HAHAHHAHA djö...snilld er þessi vefur :)

Pæling.....

..hvað ætli stór prósenta af íslendingum gangi EKKI í nærbuxum dagsdaglega?
T.d væri hægt að athuga hvað margir gestir Kringlunnar yfir einn dag eru ekki í nærbuxum innanundir fötunum, það myndi gefa góða mynd af þjóðinni í heild. Spurning hvernig sú könnun yrði gerð...kippa niður um fólk kannski...þá væri líka hægt að komast að meðal tippastærð íslenskra karlmanna í leiðinni.

Og þar sem ég hef gríðalegan áhuga á mannlegri hegðun þá myndi ég spyrja fólkið í leiðinni afhverju það er ekki í nærbuxum, hver er ástæðan....er verið að viðra?.. voru ekki til neinar hreinar?...áttu engar yfirleitt?...er þetta eitthvað kynferðislegt?..osfrv.

Seinasta próf á morgun, þá smá í ritgerð og svo búið búið búið.....er búin að panta tíma á snyrtistofu til að lappa upp á útlit eftir próf og fyrir helgi...sem verður tekin með trompi.

07 maí 2004

Gáfumannalykt = lykt sem myndast þegar námsmaður í próflestri hefur hangið inni í lítilli íbúð sinni heilan dag með sælgæti og gleymt að opna glugga.

05 maí 2004

Pása vegna prófa

...og svo er ég svo leiðinleg þessa dagana.

04 maí 2004

Munnleg hefð, íslenskar fornsögur og kvæði...............

........ef ykkur býðst að taka þetta námskeið í HÍ þá ekki gera það.........klikkaðslega mikið lesefni um leiðinlegt gamalt drasl. Fannst samt gaman að lesa Eddukvæðin og Íslendingasögurnar en ekki allar vangavelturnar um hvernig þær urðu til og hver skrifaði þær og hvernig má túlka og hvort þetta sé satt ...........og blablabla. Ég er svo lítill fræðimaður og grúskari í mér...enda móðgaði ég kennarann minn, sem hefur helgað líf sitt svona vangaveltum, þegar ég spurði hann hvort þetta skipti nokkru máli, við mundum hvort sem er aldrei fá að vita sannleikann sama hversu mikið við veltum okkur upp úr þessu.

Svei þeim sem þurfa ekki að hanga inni yfir skólabókum á þessum sólríka degi.

03 maí 2004

Er að læra á hlöðunni.....

....það væri ekki í frásögu færandi nema við hliðina á mér situr stelpa í brakandi fötum (svona vindgalla) og hún er alltaf að hreyfa sig, svo aðeins lengra frá mér situr stelpa með kvef, hún er alltaf að sjúga upp í nefið......var að hugsa að segja henni að fara og snýta sér, en held að það sé óþarfa afskiptasemi af minni hálfu. Og svo á móti mér situr stelpa sem er alltaf að svara í síman "Halló..bíddu aðeins" heyrist og svo hleypur hún fram. Ég er ekki með nógu sterkar taugar í það að læra hér, það fara öll hljóð í taugarnar á mér, svo reyndi ég að vera með eyrnatappa á áðan en þá heyrði ég of vel í sjálfum mér........t.d þá verður smá ólga í maga eins og ljónsöskur, en ef maður væri ekki með tappana þá heyrði maður ekki neitt í ólgunni.

Fór á hjólbarðaverkstæði á áðan og lét setja sumardekkin undir kaggan........hvað er með þessa karlrembu á bílaverkstæðum, ég fæ alltaf svona svip þegar ég kem þar inn..."aumingja kerlingar hálfvitinn...hvað er hún vesenast á bíl.....kann örugglega ekki að skipta um dekk og veit varla hvar gírarnir eru....ætli við getur grætt e-ð extra á henni með því að ljúga að eitt dekkið sé ónýtt...." svip.
Nei karla háfvitar það er ekki hægt að plata mig, enda kann ég að skipta um dekk og veit svona nokkurnveginn hvernig allt virkar í þessum bílum. Lenti nú í því einu sinni að dekkjamaðurinn sagði mér að þeir gætu ekki sett þessi dekk, sem ég var með, undir bílinn því þau væru eiginlega orðin of slitin, þá sagði ég þeim bara að gjöra svo vel að setja þau undir og ekkert múðu......setti upp smá trukkalessusvip og það virkaði....það var víst hægt að setja þau undir eftir allt saman.

02 maí 2004

Ég virðist ekki ráða við sjálfan mig, fór í afmælisveislu í gærkvöldi. Þar var boðið upp á áfengi, ég drakk og drakk og endaði niðri í bæ.......full.
Já full í miðri próftörn, þetta var gott tjútt en dagurinn í dag var ekki eins góður. Fyrir utan höfuðverk var ég með samviskubit yfir því að hafa látið áfengið draga mig á tálar í enn eitt skiptið. Nú verður ekki dreginn tappi úr flösku fyrr en eftir próf, það verður eftir tvær vikur tæpar. Og svo verður Eurovision partý í lok maí.

Ég skil ekki afhverju ég get ekki verið góð, sæt, prúð og heimakær ung stúlka......vinkona mín sagði við mig í dag að ekki væri hægt að nota lýsingarorðin prúð og sæt yfir mig, að ég væri frekar svona ógnandi.............hvaða hvaða!!!!!!!!!!

01 maí 2004

Ég held að ég sé orðin skoðanalaus.

Afhverju er bókhlaðan lokuð í dag? Þarf að hanga í garðinum hans Árna með fullt að talandi útlendingum í tölvustofunni.

Gleðilegan 1. maí.

Langar á tjútt í kvöld en má ekki....heilinn má ekki verða óvirkur á þessum árstíma.

Er komin með leið á spjallþáttum í sjónvarpinu eins og Kastljósi, Ísland í dag og Silfur Egils, þar snýst allt um að æsa pólitíska viðmælendur á móti hvor öðrum þannig að engin niðurstaða fáist í málin. Þessir þættir eru allir eins og ef maður heyrir hvað umræðuefnið er og hverjir mæti til að ræða það þá getur maður strax ímyndað sér hvernig þátturinn verður og þarf ekki að horfa á hann. Þeir verða oft svo ómálefnalegir út af því að stjórnendurnir vilja bara rifrildi og æsing.

Vá hvað dagurinn í dag er grænn!!!!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?