<$BlogRSDUrl$>

31 desember 2004

Hvað get ég bullað?

Nokkrir klukkutímar eftir af 2004 og líf mitt hefur enn og aftur ekki hreyfst úr stað. Ætli næsta ár færi mér ný tækifæri og skýrari framtíð?...tékka á því hjá spámanninum.

Ef ég lít yfir líðandi ár stendur hæst útskrift mín með BA í bókmenntafræði í vor þar sem ég náði því markmiði mínu að klára háskólanámið á réttum tíma (3 árum) og fá yfir 8 í meðaleinkunn. Reyndar hélt ég að framtíð mín hæfist eftir þetta nám en þá ákvað ég bara að læra meira og setja framtíðina á "hóld". Að hefja mastersnám í blaða og fréttamennsku stendur næst hæst á þessu ári hjá mér.
Í skemmtanalífinu stendur Landsmót hestamanna uppúr og óteljandi Ölstofuferðir.....reyndar man ég ekkert sérstaklega eftir e-u sérstöku djammi, þetta rennur allt saman í eitt.
Í fjölskyldulífinu þá er það eldri systir mín sem á allar stærstu minningarnar með brúðkaupi og óléttu.....annars er þessi fjölskylda alltaf jafn furðuleg sama hvað ár er.
Með þessu stutta yfirliti sé ég ekki betur en að þetta ár hafi verið ósköp ljúft og atburðarsnautt.

Markmið mín á næsta ári eru:
-byrja í líkamsrækt (hef nú sagt þetta í nokkur ár og hef ekki trú á að ég láti verða úr því nú frekar en hin árin)
-halda áfram í náminu og vera jákvæð og hætta að vera með skólaleiða
-hitta Jude Law
-verða 27b ára en ekki XX ára
-fara til Danmerkur að heimsækja góða vini mína þar og fara svo til London og hitta aðra góða vini mína þar
-eignast kærasta (þó ekki væri nema í viku)
-vera jákvæð gagnvart væmnu fólki
-fá góða sumarvinnu þar sem unglingar koma ekki við sögu
-eignast meira af fötum
-verða gáfaðri
-verða sætari (ef það er hægt ;)
-borða minna af Nóakroppi og ís
-fara á eina tónlistarhátíð í útlandinu
-bóna Grámann oftar
-birta grein í Mogganum eða Fréttablaðinu
-hætta að blogga
-gefa meiri pening í hjálparstarf
-gefa blóð oftar (þ.e alltaf á 4 mánaða fresti)
-fara oftar í leikhús
-vanda málfarið
-eignast smá meiri pening
-sleppa því að setja markmið
-hætta að bulla


Gleðilegt nýtt ár kæru vinir og gerið það fyrir mig að skjóta ekki miklum peningum í loftið í kvöld.

23 desember 2004

Síðan seinast hef ég verið að vinna og undirbúa komu hinnar heilögu hátíðar.
Fréttir eru af skornum skammti og ímyndunaraflið í lágmarki svo lítið verður skrifað hér á næstunni.
Nafni minn Kuldaboli hefur gert vart við sig að undanförnu mér til mikillar gleði.
Ætli það sé til smákökutegund sem heitir Sultardropar...og hefði e-r lyst á að borða þær smákökur?
Ég hef ekki fengið í skóinn síðan ég var á barnsaldri.

Ég óska landsmönnum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

19 desember 2004

Svei þeim sem átti sök á bökunarlyktinni sem sveif hér yfir görðunum í gær og svei þeim sem var að sjóða hangikjöt, lyktin æsti upp jólahungrið hjá mér og nú er ég orðin ennþá ákafari í að komast í sveitina til að geta borðað kræsingar útbúnar af móður minni.

Í gær lauk prófvertíðinni hjá mér, mjög langt síðan ég hef verið í svona mörgum prófum þ.e fimm. Enda er ég þreytt eftir þessa löngu törn. Próflokadjammið var svo í gærkvöldi, byrjað að fara út að borða og svo í frábært partý þar sem skólafélagarnir sýndu á sér nýjar og óvæntar hliðar með glæsilegum gítartöktum og gríni. Miðbærinn var svo eins og vanalega með sitt fulla fólk og troðning.

Nú verður pakkað niður og strunsað austur.

17 desember 2004

Seinasta próf á morgun og kæruleysið er í hámarki. Hausinn getur bara ekki einbeitt sér að námsefninu og hef ég því verið í mannlífrannsóknum í allan dag hér á bókhlöðunni....fyrir utan tímann sem ég hef notað í að dotta ofan í bækurnar.

Mikil yndælis stúlka situr við hliðina á mér, hún er greinilega með kvef og er því alltaf að bryðja hálstöflur, hósta, sjúga upp í nefið og snýta sér. Ef ég væri með súper, leysergeisla augu með útrauðu ljósi og eyðsluforriti þá væri hún löngu horfin.

Skammt frá mér situr gelgjuklíka sem virðist þrátt fyrir allt vera samsett af háskólanemum. Meðlimir þessarar klíku eru um 5 stúlkur um tvítugt sem gera meira af því að pískra saman en að læra. Einkennisklæðnaður þeirra eru gallabuxur sem sýna nærbuxunar upp úr,aðeins of stuttir bolir og aðeins of stuttir jakkar, támjóir skór og aflitað hár og aðeins of mikil "meikupp" miða við að það er miður dagur í próftíð. Virðist mér á hegðun þeirra að þær séu að reyna að ganga í augun á drengjunum í næstu borðaröð. Drengirnir virða þær ekki viðlits (enda ódrukknir) og tel ég það vera vegna þess að þær eru allar "aðeins of mikið af öllu". Langar að benda þeim á að náttúrulegt útlit er í tísku og að nærbuxnastrengjagallabuxur fara yfirleitt ekki neinum vel sem er ekki kókaínhóra með anóreksíu.

Æi þetta er nú samt ósköp venjulegt fólk sem situr hér í kringum mig, ljótt af mér að glápa á það og spá í hegðun þess. Skamm skamm.

15 desember 2004

Hvað getur maður sagt.

Að falla á tíma virðist vera ný próftækni hjá mér þetta árið....annað hvort er aldurinn farinn að segja til sín með hægara hugsanaferli eða kennararnir eru farnir að semja lengri próf.

Þá er bara eitt próf eftir, það mun vera í áfanganum Málfar og stíll. Ég sé ekki fram á mikinn frama í því prófi enda blind á allt sem heitir málfars- og stafsetningavillur. Eitt af forritunum sem gleymdist að prenta í mig.....eins og ég er annars fullkomin.

Auglýsingar á síðunni virðast skila árgangri því græna lopahúfan mín er komin aftur heim. Reyndar hafði ég sterkan grun um hvar hún var en skólafélaginn sem hafði hana í haldi harðneitaði að það væri nokkur húfa heima hjá sér í óskilum eða þangað til hann skilaði henni í morgun...ekki var farið fram á lausnagjald. Svona er fólk ósvífið.

Ekki hefur ennþá neinn karlmaður svarað auglýsingunni sem óskar eftir einum slíkum, líklega hef ég sett fram heldur ströng skilyrði um hárlit.

Mikil löngun til að öskra á almannafæri hefur gripið mig að undanförnu, með undraverðum aðhaldsaðgerðum í sálarlífinu hefur mér tekist að sleppa við þá skömm eða útrás.

Jæja besta að fara að læra afhverju maður setur y í staðin fyrir i í orð.


13 desember 2004

Ég auglýsi eftir:

- Grænni lopahúfu, uppáhalds húfan mín sem ég virðist hafa týnt fyrir um mánuði síðan. Er hún nokkuð heima hjá þér?

- Einbeitingu, kostur sem á að prýða hverja manneskju en virðist ekki vera einn af mínum miklu kostum amk ekki í próftíð.

- Brúnni heklaðri húfu, var uppáhalds húfan mín áður en ég týndi henni fyrir tæpum tveimur árum. Er hún nokkuð heima hjá þér?

- Fjólubláum g-strengs nærbuxur. Eru þær nokkuð heima hjá þér?*

- Olíusamráði, er fólk bara sátt eftir að Þórólfur sagði af sér, er samráðsmálið þá bara horfið? Djöfull er auðvelt að láta íslendinga gleyma, hengja bakara fyrir smið og þá eru allir sáttir.

- Meiri tíma, það voru jól í gær og verða jól aftur á morgun. Hvernig væri að hafa ár þarna á milli.

- Hávöxnum, dökkhærðum/ljóshærðum, stæltum karlmanni með viti á bókmenntum og heimsmálum og áhuga á dýrum. Ekki verra ef hann líkist Jude Law. Þarf einnig að vera skemmtilegur og hrífast af rauðhærðu og hávöxnu kvenfólki.

- Lyfi til að fá ógeð á ís, Nóakroppi og appelsínugulum Doritos.

* þetta er grín, ég hef aldrei týnt nærbuxum.

10 desember 2004

Seinustu tvö kvöld, þar sem ég stóð í mjaltabásnum og mjólkað, hugsaði ég mikið um búfjáreign mína en það virðist vera að ég sé ekki mjög heppin búfjáreigandi.
Kýrnar mínar:
Krossa - eina mjólkandi kýrin mín er með einn boginn fót vegna liðabólgu og gengur því hægt og haltrandi. Ekki bætir úr skák að hún er hrikalega skapvond og þolir ekki hinar kýrnar, hvað þá manneskjur. En hún er góð mjólkukýr.
Mús - er kvíga sem á að bera í fyrsta skipti stuttu eftir áramót. Hún fæddist fyrir tíman og var ægilega lítil og ljót og fékk því nafnið Mús en í dag passar þetta nafn enganvegin við hana. Hún er mjög stór og mikil beinasleggja en ennþá mjög loðin. Mamma hennar hún Frigg var hin furðulegasta skepna, var ofboðslega utan við sig og tileygð, hún átti það til að gleymast því hún var alltaf eitthversstaðar að sleikja steina eða þefa af staurum og gleymdi því að fylgja kúahópnum. Hún var títla í mjöltum en alltaf með mjög góða frumutölu. Þó Mús,dóttir hennar, sé ekki tileygð þá hagar hún sér furðulega og er hrikalega forvitin. Ég sé heldur ekki fram á að hún verði til afreka í mjólkurframleiðslu.
Kindurnar mínar:
Ég á fjórar kindur sem eru allar undan henni Doppu gömlu sem ég átti í fjölda ára.
Björk - er bjartasta vonin í bústofni mínum, hún er þriggja vetra, dökk mórauð og glæsilega vaxin. Hún er undan sæðingahrút og virðist hafa fengið alla kosti hans.
Hvít ær - tveggja vetra sem ég man ekki hvað heitir, enda er hún hvít og fellur inn í fjárhópinn og hefur ekki verið í neinu uppáhaldi hjá mér.
Viðbót - er svört á lit og veturgömul og eins og nafnið gefur til kynna þá var hún viðbót við ásetninginn á sínum tíma. Viðbót átti að fara í pottinn, hún var meira að segja komin svo nálægt honum að byssan náði að snerta á henni hausinn en þá sveif heilagur andi yfir föður minn og ákvað hann að láta hana lifa. Enda er þetta hin fallegasta ær og sér enginn eftir þeirri viðbót nema þá helst bróðir minn sem telur hana ekki til afreka í kynbótum fjárstofnsins.
Skekkja - er alsystir Viðbótar og átti hún heldur ekki að lifa, hún er svartbotnótt. Þegar það fór að nálgast sláturtíð að hausti þá fannst Skekkja í afveltu út á túni. Hún hafði legið þar lengi og var nær dauða en líf, reyndar hafði enginn krummi komist í hana. Skekkja hafði legið svo lengi í afveltu að hún var orðin skökk þ.e hausinn á henni var skakkur og hún horfið bara í aðra áttina, henni var ekki hugað líf eftir afveltuna en allt gert til að gera henni seinustu dagana bærilega. Ég gekk svo langt að taka hana í sjúkraþjálfun þ.e reyndi að snúa reglulega hausnum á henni í hina áttina með von um að takið leystist. Það virtist ekkert ætla að réttast úr henni og hún þurfti að labba skakt og borða skakt. En svo einn daginn þá var hausinn komin í rétta stöðu og þá var of seint að slátra henni, svo hún er orðin ein af fjárhópnum í dag og á von á sínu fyrsta lambi í vor. Það er alltaf hægt að þekkja hana á því að annað hornið á henni er skakt.
Hrossaeign mín:
Þruma - 7 vetra gullfalleg meri sem ég fékk í búfræðingsgjöf og hef aldrei þorað á bak á en stefni samt á það á næstu árum. Hún ber nafn með rentu því Þruma er ekki hrekkjótt heldur svo svakalega viljug að ég sé ekki fram á að ráða við hana og svo er hún líka svolítið hrædd við heiminn. Henni finnst aðrir hestar ekkert sérlega skemmtilegir, heldur sig yfirleitt frá hópnum og er ekkert að kjassast upp við mannfólkið.

Þegar ég fór eitthverntímann að kvarta yfir þessari misheppnuðu búfjáreign minni fékk ég svarið: Fé er jafnan fóstra líkt.

07 desember 2004

Fyrsta prófið er búið, Alþjóðasamvinna og staða íslands í alþjóðakerfinu. Segi ekki að mér hafi gengið neitt upp á 10 en gat svarað eitthverju við hverja spurningu. Fékk reyndar 8,5 fyrir 40 % ritgerð i sama kúrs svo ég er ekki með neinar svaka áhyggjur af mjög lélegri einkunn, sé fram á 7,5-8 sem er ágætt m.v áhuga minn á efninu.

Var á leiðinni í sund en það er svo mikið rok að það er nú varla stætt í heitupottunum, hvað þá í gufubaðinu. Hugsa ég fari frekar heim að slæpast.

Næsta próf er á laugardaginn og get ég ekki sagt að ég sé stressuð fyrir það né hin prófin tvö sem eru eftir það. Annars finnst mér ágætlega skemmtilegt að vera stressuð, ég þarf mjög lítinn svefn, sprett upp á morgnanna eins og eftir 8 tíma svefn, verð óvenju hress og tens, augun á mér verða geðsjúklega opin enda held ég mér gangandi á mörgum lítrum af kaffi og svo gleymi ég að borða sem er mjög gott fyrir línurnar en ekki magastarfsemina.

Lífið er nú ljúft
ljómandi en oft súrt
svakalega mjúkt
merkilega klúrt

03 desember 2004

Það hefur læðst að mér sá grunur að jólin séu að nálgast. Jólalög í útvarpinu, snjór á jörðu, ljósaseríur í glugga, jólapróf, bökunarilmur, desember og svona mætti lengi telja.

Ég get ekki próf núna, hausinn á mér neitar bara að virka.....ég les og les en stend mig svo að því að vera að hugsa um allt annað en það sem ég á að vera að hugsa um þ.e prófefnið.
Gæti spilað inn í að ég er að lesa mjög mikið um ESB, uppbyggingu þess og afhverju Ísland hefur ekki ennþá sótt um aðild. Þetta efni er ekki á mínu áhugasviði amk ekki í svona miklu magni í einu.

Svo eru öll prófeinkenni að koma fram hjá mér, stress, vondur svefn, bólur, mikil nammilöngun, matmálstímar í óreglu, joggingbuxur, skítugt hár, ótakmörkum kaffidrykkja, óþolinmæði og engin einbeiting.

æi æi æi

01 desember 2004

Ef ég væri með nægilega öfluga munnvatnsframleiðslu væri ég stöðugt slefandi yfir laginu "What I would say in your funiral" með Mugison. Einnig verð ég að segja að "murr murr" fær mig alveg til að halda ekki vatni.........uppáhalds töffarinn minn fílar það lag líka best.

Sá einn besta Kastljósþátt ársins í kvöld, þar sem Kristján Jóhannsson fór alveg á kostum í neikvæðri merkingu. Var dónalegur, hrokafullur og auglýsti nýja diskinn sinn á furðulegan hátt...var held ég að tryggja að hann seldist ekki fyrir þessi jól. Svo réðst hann á Eyrúnu spyril með þeirri athugasemd að hún væri orðin rauð af æsingi og fannst mér vera heilmikil kvennfyrirlitning í þeim orðum, eins og hún væri bara smástelpa sem ætti ekkert erindi í þann mikla og merkilega mann sem hann er og ætti bara að þakka fyrir að fá að tala við hann.
Það kom bersýnilega í ljós að maðurinn veður ekki í vitinu og kann ekki að tala um neitt annað en sjálfan sig á upphefjandi hátt. Held að hann hafi opinberað sinn innri mann algjörlega.
Veit samt lítið um fréttafluttning DV af þessu máli, en ef þeir hafa ætlað að leiðrétta eitthvað í Kastljósinu og búa sér til betri ímynd þá mistókst Krissa jó og stóra vininum hans það gjörsamlega í þetta skiptið.

Veit ekki með þessa líkamsrækt (þ.e maga- og rassæfingar á stofugólfinu) er ekkert nema harðsperrur og viðbjóður eftir hana. Ég get ekki svona meðvitaða líkamsrækt, þarf að gera eitthvað sem ég veit ekki að er líkamsrækt og þá gengur mér allt í haginn. Að moka skít og labba á milli staða er t.d líkamsrækt sem maður gerir sér ekki grein fyrir að er líkamsrækt og því er hún skemmtileg og svo er líka tilgangur með henni.
Ef rafmagnsframleiðsla höfuðborgarinnar byggðist á að hlaupabrettin á líkamsræktarstöðvunum væru stöðugt í gangi þá þætti mér gaman að hlaupa á þeim því þá væru hlaupin með tilgang (annan en að minnka fitumagnið á mér).

Ég er byrjuð í próflestri = ég mun blogga mikið á næstunni með von um að próflesturinn hverfi við að beina huganum annað.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?