<$BlogRSDUrl$>

24 febrúar 2005

Það er erfitt að þvo bílinn án þess að blotna í fæturnar.

Með aukinni þolinmæði og meiri áhuga get ég orðið talið mig ágætis eldabusku. Fiskur kvöldsins var mjög góður og toppaði núðlurétt gærdagsins.

Það er erfitt að vera hugmyndaríkur þegar maður hefur engar hugmyndir.

Helgin gægist fyrir hornið og er hún jafn plönuð og fyrri helgar, afmælis- og útskrifaveisla eru málið.

Það er erfitt að borða grænmeti í staðin fyrir súkkulaði.

22 febrúar 2005

Ég kann vel við þokuna.
Gaman að mæta fólki á göngu, það kemur út úr þokunni og er ekkert nema dökkar útlínur. Vildi samt ekki vera ein upp á heiði í svona þoku og mæta ókunnugri manneskju sem jafnvel liti út fyrir að vera afturganga.
Þokan er samt svo sniðug, var í Grafarholtinu á áðan og þar var hún ekki, aðeins stjörnubjartur himinn og fullt tungl. En svo við vesturlandsvegamótin keyrði ég inn í hana, eins og að fara í gegnum töfravegg.

Próf í leiðinlega áfanganum á morgun, ég hef lítið lært enda áhuginn mjög mjög mjög lítill. Vona samt að þetta blessist.

21 febrúar 2005

Hlíðarhelgin heppnaðist með eindæmum vel.
Margt býr í kýrhausnum og kom það svo sannarlega í ljós þessar helgi. Það var spáð í spil og bolla fyrir mér og kom það í ljós, sem ég hef löngum vitað, að ég er ruggluð og veit ekki í hvaða átt ég sný í lífinu eða hvert ég stefni. Okkur einhleypu stúlkunum, til mikilla vonbrigða, var enginn kærasti í spádómnum okkar þannig að Piparstúlkuklúbburinn Sveinsína mun líklega lifa lengur en ráð var gert fyrir í upphafi. Allt sem viðkom ástarmálum hjá mér snérist um svik og lygar svo mér datt í hug hvort herra Eggert ásamt fylgdarsveinum færi að svíkja mig með því að bila eða brenna út. HAHAHAH nei asskotinn ekki hafa þetta eftir mér.

Hæfileikar mínir í Twister komu í ljós eins og ég hélt, ég var betri en flestir en þessir flestir vildu ekki viðurkenna það og sögðu mig hafa það fram yfir aðra keppendur að vera með of langar hendur og fætur og ná því alltof auðveldlega á milli reita.
Sönghæfileikar mínir komu einnig fram í Singstar sem var bara nokkuð skemmtilegur leikur. Ég var ekki lélegust eins og ég hélt ég yrði og sagði tækið mig oft vera stjörnu á uppleið.
Annars var það humarsúpan sem ég held að hafi átt helgina ásamt pestóbrauðinu sem ég bakaði.

Í gær varð ég í fyrsta skipti á ævi minni móðursystir. Eldri systir mín eignaðist ásamt manni sínum tæplega 16 marka dreng í gær. Ég er strax búin að ákveða hlutverk mitt gagnvart honum en ég ætla að verða uppáhalds frænkan sem er skemmtilegust og mest töff. Reyndar ætla ég ekki að byrja að passa hann fyrr en kúkableyjuskeiðinu er lokið.

18 febrúar 2005

"Hver er maðurinn þinn?"
Þetta er verið að spyrja konur þegar þær sækja um bankalán til að hefja eigin rekstur. Ennþá er verið að skilgreina konur út frá því hverjum þær eru giftar, eins og makinn skilgreini mann sem persónu. Ég hugsa að ef ég yrði spurð að þessu af bankastjóra þá myndi ég snappa nett því ég þoli ekki þegar fólk er skilgreint út frá kyni eða maka. +&%#"+*
Einnig kom í ljós í þessari rannsókn að konur njóta minna lánstraust og eiga mikið erfiðara með að fá lán til að fara út í eigin rekstur heldur en karlmenn. Samt hafa rannsóknir sýnt að þær standa miklu frekar í skilum og eru samviskusamari. En lánastofnanir hafa minni trú á hugmyndum kvenna en karla.

Hvar er þetta jafnrétti sem fólk er að tala um?

17 febrúar 2005

Ég vil þakka Bókaútgáfunni Bjarti fyrir að mótmæla markaðssukkinu og gefa mér Veröld okkar vandalausu eftir Kazuo Ishiguro.

Einnig þakka ég skólanum fyrir að hafa svo mikið að gera að ekki gefst tími til að borða þannig að ég hef þurft að lifa á súkkulaði og kaffi undanfarna daga. Ásamt því að sleppa því að lifa félagslífi, fara í bíó og sofa. Hef tæp þrjú ár í að fá magasár fyrir þrítugt, stefnir allt í góðann árangur.

Um næstkomandi helgi mun stór hluti vinkonuhópsins hittast á óðalsetri einnar prinsessunar. Allt stefnir í helvíti því einhver ætlar að mæta með SINGSTAR á svæðið ásamt því að VÍN verður haft við hönd. Ég var að hugsa um að hætta við að mæta en frétti svo að TWISTER myndi mæta á svæðið. Það er eitt af mínum uppáhaldsspilum því það krefst mikillar tækni sem felst í því að vera stöðugur en samt svo valtur í afturendandum að maður "bömbar" alla andstæðingana af spiladúkknum. Annars er langt síðan ég hef spilað það svo það er spurning um hvort liðleiki og leiktækni hafi tapast.

15 febrúar 2005

Þetta get ég ....

gert birtingarhæfa frétt með aðstoð góðra manna. Fréttin kom ágætlega út fyrir utan hvað ég var nefmælt af völdum kvefumferðar nr 2 þetta árið.

Var semsagt í starfsþjálfun á Stöð tvö í tvo daga og skemmti mér vel, einstaklega hjálpsamt, hresst og þolinmótt fólk sem vinnur þar.

Lenti reyndar í smá veseni þegar ég var viðstödd beinar útsendingar í sjónvarpi og útvarpi því ég var svo kvefuð og þurfti sífellt að vera að sjúga upp í nefið, snýta mér eða hnerra en gat það ekki í beinni og beið því alltaf óþolinmóð eftir auglýsingarhléum. Vesen

mmmmmmmmmmmmmmm jæja bless

12 febrúar 2005

Niðurstaðan varð grjónagrautur.

Eftir að hafa skoðað öll blöð með heimsendingatilboðum, krufið löngun mína í pizzu og komist að því að mig langaði ekki í neitt sem kæmi heim til mín í höndum ungs drengs með derhúfu ákvað ég að elda grjónagraut. Reyndar kom sú ákvörðun eftir mikið gláp inn í skápa og skúffur með von um að matur hoppað út fullbúinn. Grjónagrautur með mikið af rúsínum er alltaf góð lausn á hungurvandamálinu.

Mér er boðið í partý í kvöld og það furðulegasta hefur gerst, ég nenni eiginlega ekki að fara í það. Ég hef djammað og drukkið hverja einustu helgi sem liðin er á þessu ári og gerði það líka nærri allar helgar á seinasta ári og því er ekki skrítið að ég skuli vera komin með leið á þessu sukki. Mig langar bara að vera heima, horfa á kassann og borða RISA poka af Nóa Kroppi en þar sem ég hef boðað komu mína í partýið þá hugsa ég að ég kíki í smá stund þangað.

assskotinnn það er ekki til mjólk í grautinn, þessi grautur krefst ferð út úr húsi, einmitt það sem ég ætlaði að komast hjá. 10-11 fólkið er svo leiðinlegt núna, ég kem í búðina til þeirra nokkru sinnum í viku og alltaf spyr það mig hvort ég hafi fundið allt sem ég leitaði að. Ég meina, það er ekki hægt að fá neitt annað en það sem fæst í búðinni og ef mér vantaði eitthvað annað þá gætu þau ekki reddað því. Og ef ég fyndi ekki það sem ég leitaði að þá myndi ég spyrja þau.
Ef þau spyrja mig á eftir ætla ég að biðja þau að hætta að spyrja mig að þessu, ég nenni ekki lengur að vera kurteis, segja "já, ég fann allt" og brosa svo eins og mér finnist gaman að svara þessu.

10 febrúar 2005

Eftirfarandi get ég ekki:

- horft á Fólk með Sirrý
- farið í splitt eða annað sem krefst extra liðleika
- fundist fiskihrogn góð
- farið að gráta í bíó
- komist í föt í xs og s stærðum
- skilið hvað konum finnst sexí við David Beckham
- skilið hvað karlmönnum finnst flott við að hafa stórann glitrandi eyrnalokk í öðru eyranu
- of mikinn snjó
- lært heima þegar ég hef skipulagt að gera það (verður að vera óvænt og óskipulagt)
- farið í megrun
- átt pottablóm
- þolað pastel liti
- sungið eða teiknað
- horft á Borðleggjandi með Völla Snæ
- ofl

ATH! Hver er með Da Vinci lykillinn bókina mína í láni????

Í gær fór ég að sjá Farenhype 9/11 sem er andsvar við myndinni Farenheit 9/11. Farenhype átti að varpa ljósi á hálfsannleika og ósannsögli Michael Moore í Farenheit en var svo leiðinleg og illa gerð að ég dottaði ágætan part af henni. Farenheit var öfgafull í eina átt og Farenhype er öfgafull í hina, núna vantar þriðju myndina sem segir sannleikann. Farenhype var kosningabaráttáttumynd fyrir Bush og byggist á að upphefja hann með bandarískum klisjum um fresli og þjóðernisást. Bara kjaftæði.


08 febrúar 2005

Ekki góð hugmynd að setja Nick Cave í spilarann þegar veðrið er kalt og dimmt og leiðinlegt verkefni um verðbólgu og vísitölu er á tölvuskjánum. Þessar aðstæður leiddu til þess að hugurinn fór á flug og var á endanum kominn yfir kjörþyngd af þyngslum.

Ekki bætti úr skák að ég gleymdi fótunum uppi á borði, ekki langt frá opnum glugga og var orðið svo kalt á tánum að ég nennti ekki að standa upp til að loka glugganum, sá að svo stutt væri í að tærnar dyttu af vegna kals að það borgaði sig ekki að ná rassinum upp úr stólnum til að loka gluggaræflinum.

No more shall we part hefur lokið flutningi sínum og gefur háttatíma í skin, ætli rúmið ásamt föruneyti sínu muni ekki lífga hugann og tærnar við úr kalinu.

07 febrúar 2005

Mánudagur og hvað get ég sagt?

Var að koma í bæinn úr sveitasælunni, er sem ný manneskja, afslöppuð og kveflaus.
Þorrablót Gaulverja var, eins og vanalega, toppskemmtun. Held ég að ekkert Reykjavíkurdjamm jafnist á við gott þorrablót. Daman dressaði sig í sitt besta, leit út sem prinsessa og sveif um gólfin dúnmjúkum danssporum (eða ekki enda þekkt fyrir að vera jafn lipur og staur þegar kemur að dansi). Skemmtiatriðin voru góð og maturinn fínn, ég náði að borða minn árlega hákarlsbita, svo var dansað við undirleik Karma nærriþví fram að mjöltum.
Þar sem enginn herra bauð sig fram sem fylgdarsveinn í þetta skiptið fengu fjölskyldumeðlimir notið óskiptrar athygli minnar. Fyrir utan ættingja og vini var lítið um myndarlega herra að dansa við á blótinu, ég var þó svo heppin að sitja til borðs hjá flottasta piparsveini sveitarinnar á sjötugsaldri........ég var nú ekki vör við að hann gæfi mér auga.

Um helgina bar ég augum nýjasta meðliminn í kúafjölskyldunni minni. Hún Krossa mín (þessi með skökku löppina og brjálaða skapið) er ný búin að eignast fallega rauða kvígu. Hún er undan Þvertein (frá Þverlæk) og hefur hlotið nafnið Lind (eftir Berglindi á Þverlæk). Ég bind miklar vonir við Lind og m.v allt ætti hún að verða sómi minn í kúahópnum eftir umþb tvö ár........en m.v óheppni mína í dýraeignum hingað til ætla ég ekki að byggja upp of miklar vonir því hún væri vís með að lenda í e-u eða fá skakka löpp eins og mamma sín.

Allt lítur út fyrir brjálaðan lærdóm þessa vikuna, náði ekkert að læra í seinustu viku og því með buxurnar á hælunum í öllu. En það er allt í lagi vegna þess að í alvörunni núna er ég komin með skólaleiða í miklu hámarki.........ég finn að ég er ekki manneskja til þess að fara í læknisfræði eða lögfræði og vera í skóla hálfa ævina...........hhhhhhheeeeeeemmmmmmmm en ég er nú reyndar búin að vera í skóla núna í samfellt sex ár, það er ekki skrítið að ég skuli vera orðin hundleið.

02 febrúar 2005

Ég er svolítið skotin í brjóstunum á Þórunni Lár núna, í hvert einasta skipti sem hún birtist á skjánum á Íslensku tónlistaverðlaununum þá standa geirvörtunar töff út úr rauða kjólnum.
Ég ætti kannski að þora þessu, en samt óþægilegt hvað fólk glápir á barminn ef maður er svona útbúinn, kannski svipað og ég glápi núna á brjóstin á Þórunni Lár.
Mig minnir að í einum þætti af Beðmálum í borginni hafi Samantha verið með sérstakar gervi geirvörtur því það var í tísku að vera ekki í haldara og láta þær standa út í loftið.
En ef ég leggði út í slíka aðgerð þá yrði mér alltaf að vera kalt því annars er ekkert kúl að vera á túttunum.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?